
Rússneska fréttastofan INTERFAX.RU skýrði frá því síðdegis föstudaginn 18. febrúar að hafinn væri brottflutningur íbúa frá Donetsk alþýðulýðveldinu (DPR) sem aðskilnaðarsinnar ráða með stuðningi Rússa í austurhluta Úkraínu. Denis Pushilin, leiðtogi DPR, sagði fólkið flutt til Rostov í Rússlandi vegna vaxandi spennu í sjálfstjórnarlýðveldinu.
Hann boðaði að frá og með föstudegi 18. febrúar yrðu skipulagðir fjöldaflutningar á fólki til Rússlands. Í fyrstu umferð yrðu konur, börn og gamalmenni flutt á brott.
Í sjónvarpsávarpi hans sagði að í samræmi við samninga við rússnesk yfirvöld væri húsaskjól fyrir brottflutta í Rostov. Fólkinu yrði séð fyrir öllum nauðsynjum.
Séð hefði verið til þess að farartæki með brottflutta yrðu ekki stöðvuð við vegatálma á landamærunum inn í Rússland. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana bæru ábyrgð á að skipuleggja brottflutning fjölskyldna starfsfólks. Herstjórnin léti í té farartæki fyrir almenna borgara.
Í fréttinni segir að til þessa ráðs sé gripið til að forða íbúum DPR undan hugsanlegri árás hers Úkraínu.
Fimmtudaginn 17. febrúar bárust fréttir frá öllum liðsveitum í Donbass um að ástandið versnaði stöðugt við aðskilnaðarmörkin. Sprengjuárásum fjölgaði. Almennir borgarar særðust.