Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Kongó, annað stærsta ríki Afríku rambar á barmi borgarastyrjaldar. Kongó í miðhluta álfunna er einnig fjórða fjölmennasta ríki Afríku. Þar búa um 80 milljónir og fer landsmönnum hratt fjölgandi enda eiga konur í Kongó að meðaltali sex börn. Hagur landsmanna er mjög bágborinn. Til að mynda eru lífslíkur Kongóbúa aðeins 58 ár og um 85% landsmanna þéna minna en 125 krónur á dag. Örlög íbúa landsins eru enn sárari en ella vegna þess að þetta stóra land, en Kongó er um tuttugu og þrisvar sinnum stærra en Ísland, er ríkt af náttúruauðlindum. Í landinu eru víðfemir frumskógar sem eru heimili fjölskrúðugs dýra- og plöntulífs og mikið er af náttúruauðlindum í jörðu. Kongóáin gæti líka verið gullnáma fyrir landsmenn því reisa má vatnsorkuver í ánni sem gæti uppfyllt orkuþörf stórs hluta sunnanverðar Afríku.
Kongóbúar hafa hins vegar ekki borið gæfu til þess að nýta landsins gæði og er það fyrst og fremst vegna þess að landsmenn hafa lengi þurft að búa við óstjórn og átök. Hægt væri að rekja þá sorgarsögu allt aftur til seinni hluta 19. aldar þegar ásókn í gúmmí, en mikið er af gúmmítrjám í Kongó, leiddi til þess að landsmenn voru beittir miklu harðræði af þeim sem stjórnuðu þeim iðnaði en það verður ekki gert hér enda má rekja flest vandamál sem Kongóbúar búa við í dag til tímabilsins sem hófst þegar Kongó hlaut sjálfstæði frá Belgum árið 1960. Tíminn sem þjóðirnar tvær gáfu sér til að undirbúa sambandsslitin var mjög knappur og þegar sjálfstætt Kongó leit dagsins ljós þann 30. júní árið 1960 voru stjórnendur landsins ekki tilbúnir til þess að axla hina nýju ábyrgð. Enda fór svo að borgarastríð hófst fljótlega í hinu svokallaða fyrsta lýðveldi og lauk því ekki fyrr en 1965 eftir að Sameinuðu þjóðirnar höfðu þurft að skipta sér af málinu og eftir að fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins, Patrice Lumumba hafði verið myrtur. Er stríðinu lauk tók ekki betra við því þá komst Mobutu Sese Seko til valda en hann kom á einræðisstjórn í ríkinu sem kallað var Saír frá 1971-1997. Mobutu kom landinu á vonarvöl en stjórnartíð hans lauk eftir að Rwanda réðst inn í Saír árið 1996 en í kjölfarið var þriðja lýðveldið sett á laggirnar undir stjórn Laurent-Désire Kabila. Öldur lægði hins vegar ekki við stjórnarskiptin og geisaði stríð í landinu nánast linnulaust næstu sjö árin en talið er að það hafi leitt til dauða allt að fimm milljóna manna sem þýðir að þetta eru mannskæðustu átök í heiminum frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Styrjöldinni lauk formlega árið 2003 en í raun hefur aldrei komist á varanlegum friður og skærur hafa reglulega blossað upp. Friðargæslulið á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur verið í Kongó frá því um aldamótin en það hefur ekki burði til að gæta friðar í öllu landinu.
Laurent-Désire Kabila var myrtur árið 2001 og við tók sonur hans Joseph. Hann er líkt og faðir hans afleitur og óvinsæll stjórnandi en eitt af því sem hann hefur gert er að fara á svig við stjórnarskrá landsins. Hún kveður á um að forseti landsins megi aðeins sitja í tvö kjörtímabil og hefði Joseph Kabila átt að stíga til hliðar árið 2016. Hann situr hins vegar sem fastast þó hann sé að missa tökin. Þetta hefur leitt til fjölmennra mótmæla og heldur vikuritið The Economist því fram að miklar líkur séu á því að borgarastríð hefjist aftur í landinu enda getur óróinn dregið upp á yfirborðið óleystar deilur sem voru undirrót átaka á árum áður. Nefna má að ennþá eru fjölmargir skæruliðahópar starfandi í landinu (þeir eru a.m.k. sjötíu), eignarhald á náttúruauðlindum er umdeilt, stjórnkerfið er veikt og grunt er á hinu góða milli þeirra fjölmörgu fylkinga sem landsmenn skiptast í. Átök hafa nú þegar brotist út í tíu af tuttugu og sex héruðum landsins og milljónir manna eru á vergangi. Ef þau breiðast út til annarra landshluta þá má búast við afar blóðugu borgarastríði og hætt er við að nágrannaríki Kongó dragist inn í það.
Deilurnar í Kongó kunna að virðast fjarlægar okkur Íslendingum en ekki má gleyma því að íslenskt sendiráð er í Úganda sem liggur að Kongó og nýlega ákváðu stjórnvöld að efla starfsemina þar til að styrkja tengsl Íslands við Afríku. Brjótist stríð út í Kongó er það markmið í hættu. Kongódeilan verður ekki auðleyst en ýmislegt er hægt að gera til að reyna að koma í veg fyrir stríð í landinu. Alþjóðasamfélagið ætti t.d. að efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Kongó, þrýsta á Kabila að segja af sér og auka efnahagsþvinganir gegn þeim sem stefna öllu í bál og brand í landinu. Einnig væri skynsamlegt að styrkja grasrótarsamtök líkt og Lucha sem berjast fyrir bættum stjórnarháttum í Kongó. Það væri líka mjög jákvætt ef nýr forseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, tæki að sér friðarumleitanir í landinu en hann þykir slyngur samningamaður en hann var einn þeirra sem batt enda á aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku og einnig kom hann að friðarferlinu á Norður-Írlandi.