
Stjórnvöld í Moskvu hafa skipað héraðsstjórnendum um landið allt að finna hermenn til að hindra frekara undanhald rússneskra innrásarhersins í Úkraínu. Á norsku vefsíðunni BarentsObserver birtist föstudaginn 2. september frétt um að hermenn frá Komi lýðveldinu hefðu flogið frá herstöð á Kólaskaga suður á bóginn.
Komi lýðveldið er hérað í norðvesturhluta Rússlands, móðurmál íbúanna er í ætt við finnsku. Héraðsstjóri þar er læknirinn Vladimir Uiba. Hann er faralds- og sóttvarnafræðingur og var sendur til Komi vegna COVID-19-faraldursins fyrir um tveimur árum. Veiran herjaði þungt á íbúa í Komi og fór svo að Vladimir Pútin Rússlandsforseti gerði lækninn, sem sinnt hafði rannsóknum og læknisstörfum í Moskvu, nær fyrirvaralaust að héraðsstjóra.
Eftir að um 30 ungir menn frá Komi höfðu hlotið skyndiþjálfun hjá rússneska Norðurflotanum á Kólaskaga kom Vladimir Uiba héraðsstjóri sjálfur til að kveðja þá fyrir förina á vígvöllinn.

Þótt Vladimir Uiba hafi aldrei gegnt neinni þjónustu í hernum skrýddist hann af þessu tilefni herklæðum og á brjósti hans hvíldu heiðursmerki hermanna. Á höfði bar hann húfu þar sem stór hvít Z á svörtum grunni staðfesti hollustu hans við sigurinn í stríði Pútins.
Í ávarpi sem Uiba flutti við brottför hermannanna til Úkraínu og sagt er frá á BarentsObserver sagði hann að stríðsmennirnir frá Komi yrðu mikilvægt „framlag til mikils sigurs“. Komi-lýðveldið og öll rússneska þjóðin fylltist stolti vegna væntanlegs sigurframlags hermannanna.
Héraðshöfðinginn ræddi við blaðamenn sem voru við kveðjuathöfnina á Severomorsk-3 herflugvelli Norðurflotans skammt frá Múrmansk. Hann sagði við þá: „Af okkar hálfu er þessi eining framlag til sigursins mikla.“
Uiba setti færslu um athöfnina á Telegram samfélagssíðuna.
Blaðamaður BarentsObserver segir sigurvonir héraðsstjórans ekki hljóma sannfærandi þegar litið sé til þess hóps karlmanna sem sendur var að þessu sinni á átakasvæðið. Þeir hafi ekki borið með sér yfirbragð elítu-atvinnuhermanna. Þarna hafi staðið hópur karla á ólíkum aldri sem virtist hvorki mjög sterkur né þrekmikill.
Aleksander Moiseev, yfirmaður Norðurflotans, og Tarasíj, biskup af Severmormorsk, tóku einnig þátt í kveðjuathöfninni. Þeir kvöddu stríðsmennina með handabandi áður en þeir gengu um borð í flugvélina sem hóf sig skömmu síðar á loft til suðurs.
Vladimir Uiba sagði hermennina hluta af deild fótgönguliða í Norðurflotanum og héti deildin einfaldlega Komi.
Þegar vélin með hermennina hélt að flugbrautinni sagði héraðsstjórinn: „Ég þakka þeim fyrir að vera fúsir til að sinna hernaðarlegri skyldu sinni af virðingu og hetjulund.“
Hann sagði einnig: „Sannleikurinn veitir vald! Farið á Guðs vegum!“
Komi-hermennirnir eru sendir til vígvallarins nokkrum dögum eftir að sambærilegur hópur karla var sendur þangað frá Arkhangelsk. Áður en hópurinn frá Arkhangelsk fór af stað suður á bóginn var hann við æfingar á svæði Norðurflotans í Petsamó, í nokkurra kílómetra fjarlægð frá NATO-landinu Noregi.
Vladimir Uiba hefur sem héraðsstjóri Komi-lýðveldisins síður en svo farið leynt með stuðning sinn við stríðið í Úkraínu. Hann kemur hvað eftir annað fram opinberlega í einkennisbúningi hermanna og rækilega merktur með Z.
Uiba hefur nokkrum sinnum farið til svæða í Úkraínu sem Rússar hafa hernumið. Fyrir hans tilstilli leggur Komi til umtalsvert fé til endurreisnar í hernumdum bæjum og þorpum. Fáeinum dögum áður en Uiba fór til athafnarinnar í Severomorsk var hann í Rovenkíj, um 45.000 manna bæ en þar láta fulltrúar frá Komi einkum að sér kveða.