Home / Fréttir / Köln: Ásakanir um yfirhylmingu í þágu ofbeldisfullra hælisleitenda

Köln: Ásakanir um yfirhylmingu í þágu ofbeldisfullra hælisleitenda

Lögreglumenn framan við brautarstöðina í Köln.
Lögreglumenn framan við brautarstöðina í Köln.

Á nýársnótt veittist hópur karlmanna með kynferðislegu ofbeldi að konum í miðborg Kölnar í Þýskalandi. Nú hefur efni úr lögregluskýrslum um atburðinn verið lekið til fjölmiðla og þar kemur fram að í hópi karlanna voru flóttamenn frá Sýrlandi. Einn þeirra hafi sagt við lögreglumann: „Ég er Sýrlendingur. Þú verður að sýna mér vægð, frú Merkel bauð mér hingað.“

Í fréttum segir nú að ofbeldisverkin hafi verið mun alvarlegri en áður var ætlað og á einu stigi málsins hafi yfirmaður í lögreglunni óttast að það gæti komið „til mannfalls“.

Fréttaskýrendur segja að sé efnið sem sagt er úr lögregluskýrslunum rétt geti það haft víðtækar afleiðingar fyrir ríkisstjórn Angelu Merkel þegar hún reynir að takast á við eftirleik ofbeldisverkanna.

Ráðherrar hafa sagt að engar sannanir séu fyrir fullyrðingum um að hælisleitendur hafi átt aðild að ofbeldinu. Í Bild og Spiegel  hafa hins vegar birst frásagnir um hið gagnstæða úr lögregluskýrslunni sem lekið var. Þar er að finna ummælin:  „Ég er Sýrlendingur. Þú verður að sýna mér vægð, frú Merkel bauð mér hingað.“

Þá segir að annar karl hafi rifið dvalarleyfi sitt í tætlur fyrir framan lögreglumann og sagt: „Þú getur ekkert gert við mig, ég get náð í annað á morgun.“

Í Kölnarblaði var sagt frá því að í tengslum við árásirnar á konurnar hefðu fimmtán hælisleitendur frá Sýrlandi og Afganistan verið í stutta stund í haldi lögreglu á nýársnótt áður en þeim var sleppt.

Í blaðinu Express var haft eftir ónafngreindum lögreglumanni að sveit hans hefði handtekið fólk sem hefði „aðeins verið nokkrar vikur í Þýskalandi“. Þar af hefðu 14 verið frá Sýrlandi og einn frá Afganistan. „Þetta er sannleikurinn þótt hann sé sár,“ sagði lögreglumaðurinn.

Haft var eftir öðrum lögreglumanni að mennirnir 15 sem voru teknir fastir hefðu haft „dvalarleyfi vegna afgreiðslu hælisumsóknar“. Nöfn þeirra hefðu verið skráð í bækur lögreglunnar.

Strax eftir atburðina vöknuðu grunsemdir um tilraunir til að leyna almenning því hverjir stóðu að ofbeldisverkunum af því að það þjónaði pólitískum hagsmunum að hið rétta kæmi ekki í ljós. Reynist frásagnirnar sem nú hafa birst réttar skapar það yfirvöldum í Köln aukinn vanda. Þau verða sökuð um tilraun til yfirhylmingar með fullyrðingum um að þau hefðu enga vitneskju um hvort hælisleitendur ættu hlut að máli.

Ekki hefur verið skýrt til hlítar hvers vegna hinum handteknu var sleppt. Lögreglan hefur sagt að hún hafi einfaldlega ekki ráðið við meira um nóttina.

Gagnrýnendur Angelu Merkel Þýskalandskanslara hafa ekki dregið við sig að skella skuldinni á hana vegna árásanna og gripdeilda í Köln og annars staðar þ. á m. Hamborg, Frankfurt og Stuttgart. Segja þeir að rekja megi ófögnuðinn til hindrunarlausrar stefnu hennar gagnvart flóttafólki. Alls voru tæplega 1,1 milljón hælisleitendur skráðir í Þýskalandi á árinu 2015.

Fimmtudaginn 7. janúar sagði Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, að hælisleitendum kynni að verða brottvísað kæmi í ljós að þeir hefðu tekið þátt í ofbeldisverkunum í Köln. Hann sagði að vísa mætti fólki í hælis-afgreiðsluferli úr landi ef það hlyti eins árs eða lengri dóm. „Það er hlutverk dómara að ákveða refsinguna en hún gæti hugsanlega orðið svo þung fyrir kynferðislegt ofbeldi,“ sagði ráðherrann.

Í Bild er ekki getið um höfund lögregluskýrslunnar en sagt að hann sé foringi um 100 lögreglumanna sem hafi verið sendir sem liðsauki á vettvang ofbeldisverkanna fyrir framan brautarstöðina í Köln á nýársnótt.

„Þegar við komum á vettvang var púðurkerlingum ausið á bifreiðar okkar,“ segir í skýrslunni. „Á torginu og á tröppum dómkirkjunnar voru um þúsund manns, að mestu karlmenn, innflytjendur að uppruna, sem köstuðu skoteldum og flöskum tilviljanakennt inn í hópinn.“

Koma lögreglunnar sló ekkert á ofbeldisverkin.

„Um 22.45 fylltist torgið fyrir framan brautarstöðina af fólki sem var innflytjendur að uppruna. Konur hlupu í orðsins fyllstu merkingu undir svipuhöggum fylkingar drukkinna karlmanna á þann veg sem ekki verður lýst. Við komumst að þeirri niðurstöðu að hætta væri á algjörri upplausn eða alvarlegum slysum, kæmi ekki hreinlega til mannfalls.“

Lögreglan ákvað að ryðja svæðið en mætti andstöðu og hvað eftir annað rigndi yfir hana „skoteldum og flöskum“. Þá er sagt í skýrslunni að í mannfjöldanum hafi verið einstaklingar sem innbyrt hefðu „gífurlegt“ magn af áfengi eða öðrum fíkniefnum eins og kannabis.

Um klukkan 12.15 hafði lögreglu tekist að ryðja svæðið en ofbeldisverkunum var fram haldið þegar múgurinn hélt inn í þröngar hliðargötur.

„Margar konur komu í áfalli og grátandi vegna kynferðislegra árása til lögreglumanna og lögðu fram kæru. Lögregluliðið gat ekki brugðist við öllum atvikum, árásum og afbrotum. Það gerðist einfaldlega of mikið á sama tíma.“

Lögreglumenn voru mun færri en ofríkismennirnir og þeim var gert ókleift að nálgast fórnarlömb í mannfjöldanum. Nokkrum gerendum var skipað að hverfa af vettvangi en þeir hæddust bara að lögreglunni.

Rúmlega 150 konur hafa lagt fram kærur til lögreglu, 75% þeirra eru fyrir kynferðislega árás. Tvær kærur vegna nauðgunar hafa verið skráðar. Lögregla segir að til þessa hafi tekist að finna sjö hinna grunuðu. Tveir eru þegar í haldi en þeir voru handteknir fyrir að ráðast að konum að kvöldi sunnudags 3. janúar.

Lög um persónuvernd í Þýskalandi banna að menn undir grun séu nafngreindir.

Það varð ekki til að bæta andrúmsloftið í Þýskalandi að fimmtudaginn 7. janúar var skýrt frá því að þrír Sýrlendingar hefðu verið handteknir í suðurhluta Þýskalands grunaðir um að hafa hópnauðgað tveimur táningsstúlkum á nýársnótt.

Þeir hafa verið í haldi í nokkra sólarhringa en farið var með málið sem trúnaðarmál til að vernda friðhelgi fórnarlambanna sem eru undir lögaldri að sögn saksóknara.

Um er að ræða 21 árs mann og tvo 14 ára pilta sem voru handteknir í bænum Weil am Rhein, skammt frá landamærum Sviss og Frakklands.

Þeir eru grunaðir um að hafa nauðgað tveimur 14 og 15 ára stúlkum sem voru með þeim á nýársnótt heima hjá hinum 21 árs gamla í nágrannaþorpinu Friedlingen. Hinn fjórði er 15 ára bróðir húsráðanda.

Saksóknarar segja að þeir hafi nauðgað stúlkunum og haldið þeim nauðugum í nokkrar klukkustundir.

Lögregla segir að hinir grunuðu séu ekki hælisleitendur og hún telur engin tengsl á milli nauðgunarinnar og kynferðisárásanna í Köln og öðrum þýskum borgum.

Hinn 21 árs gamli og bróðir hans búa í Þýskalandi, hinir tveir búa í Sviss og Hollandi.

Heimild: The Telegraph-vefsíðan

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …