Home / Fréttir / Kóka kóla í hremmingum vegna Krímdeilunnar

Kóka kóla í hremmingum vegna Krímdeilunnar

Coca Cola

Kóka kóla fyrirtækið birti nýársóskir á vinsælustu samfélagssíðu Rússlands, WK. Við hlið hennar var kort af Rússlandi án þess að Krímskagi væri hluti þess þótt Rússar hefðu innlimað hann.

Eftir mikla gagnrýnisöldu var kortinu breytt þriðjudaginn 5. janúar og Krímskagi settur undir Rússland, hið sama gilti um Kúril-eyjar sem eru ágreiningsefni Rússa og Japana og hólmlenduna Kalíningrad milli Litháens og Póllands. Netverjar í Úkraínu brugðust hins vegar illa við þessu og sumir þeirra hvöttu til þess að fólk hætti að kaupa Kóka kóla og aðra gosdrykki frá fyrirtækinu.

Við svo búið ákváðu stjórnendur Kóka kóla einfaldlega að afturkalla nýárskortið. „Kæru vinir! Þökkum ykkur fyrir áhugann. Það var ákveðið að afmá sendinguna sem vakti óánægjuna,“ sagði umboðsmaður Kóka kóla í Úkraínu á Facebook-síðu sinni. Móðurfyrirtækið í Atlanta í Bandaríkjunum baðst afsökunar síðdegis þriðjudaginn 5. janúar. Frá Atlanta bárust einnig þau boð að auglýsingastofa utan fyrirtækisins bæri ábyrgð á þessum mistökum.

Rússar innlimuðu Krím vorið 2014 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu á skaganum. Stjórnvöld í Kænugarði og vestrænir bandamenn þeirra telja að innlimunin hafi verið brot á alþjóðalögum, Krím sé enn hluti Úkraínu.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …