Home / Fréttir / Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Nikki Haley

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember að forríkir Koch-bræðurnir ákváðu að styðja Nikki Haley (51 árs), fyrrv. ríkisstjóra S-Karólínu og fastafulltrúa Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum 2017 og 2018, til að verða forsetaefni flokksins.

Koch-bræður hafa árum saman ráðið miklu um niðurstöðu forkosninga meðal repúblikana með fjárstuðningi við frambjóðendur úr sjóðnum Americans for Prosperity Action (AFP). Stuðningur þeirra hefur skotið mörgum upp á stjörnuhimininn í flokknum.

Á bandarísku vefsíðunni Axios segir óljóst hve miklu fé verði varið úr sjóði bræðranna til stuðnings Nikki Haley en vilyrðið eitt dugi til að opna henni dyr til annarra áhrifamikilla stuðningsmanna. Hún geti nýtt sér sjónvarp betur til auglýsinga og virkjað grasrótarhreyfingar.

Minnt er á að áhrif Koch-bræðranna í flokknum hafi minnkað eftir að Trump og menn hans náðu fótfestu þar. Þeir hafi ýtt Koch-hreyfingunni út í kuldann vegna óvildar hennar í garð Trumps. Á hinn bóginn leiði Koch-stuðningurinn nú til þess að litið verði á Nikki Haley sem helsta keppinaut Trumps þegar tæplega 50 dagar eru til fyrstu forkosninganna í Iowa-ríki.

Í upphafi forkosningabaráttunnar var almennt talið að Ron DeSantis, ríkisstjóri í Flórída, yrði Trump hættulegastur. Nú er talið að barátta DeSantis hafi í raun runnið sitt skeið.

Donald Trump hefur mikið forskot gagnvart Nikki Haley samkvæmt könnunum innan flokksins. Þegar fylgi utan og innan flokksins er mælt gagnvart Joe Biden forseta og líklegum frambjóðanda demókrata er Nikki Haley sú í hópi repúblikana sem talin er líklegust til að sigra Biden.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …