Friðarrannsóknastofnunin SIPRI segir í skýrslu sem birt var mánudaginn 17. júní að undafarna tólf mánuði hafi kjarnorkuvopnabirgðir heldur minnkað á heimsvísu en hætta á kjarnorkuátökum sé meiri en áður.
„Um er að ræða nýja gerð vopnakapphlaups, það snýst ekki um magn heldur tækni,“ sagði Hans M. Kristensen, sérfræðingur í afvopnunarmálum hjá SIPRI í Stokkhólmi, við Euronews.
Í skýrslunni eru níu kjarnorkuríki nefnd til sögunnar: Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland, Kína, Indland, Pakistan, Ísrael og Norður-Kórea. Þau hafi átt samtals 13,865 kjarnorkuvopn í ársbyrjun 2019 miðað við 14,465 ári áður.
Segir Kristensen að þetta megi að hluta rekja til þess að kjarnorkuveldin hafi breytt um stefnu. Kjarnorkuvopn gegni ekki lengur klassísku hlutverki sem fælingarvopn. Nú sé unnið að tæknilegum breytingum sem leiði til þess að vopnunum megi beita í átökum á vígvellinum.
Rússar þrói til dæmis vopn til að komast hjá eldflaugavarnakerfi Bandaríkjamanna sem aftur á móti vinni að gerð nýrra skammdrægra vopna sem nota megi til að svara þessum aðgerðum Rússa.