Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Í ár eru áttatíu ár síðan þýsku vísindamennirnir Otto Hahn og Fritz Strassmann uppgötvuðu kjarnaklofnun (nuclear fission) en skilningur á því ferli er undirstaða smíði kjarnavopna. Skömmu síðar hófst síðari heimsstyrjöldin og í kjölfarið skipulögðu Bretar og Bandaríkjamenn Manhattanverkefnið sem leiddi til þess að fyrsta kjarnorkusprengjan var sprengd árið 1945. Síðan þá hefur mannkynið lifað á atómöld. Sem betur fer hefur þessum vopnum ekki verið beitt síðan tveimur sprengjum var varpað á Japan til að knýja fram uppgjöf þeirra í síðari heimsstyrjöldinni en nefna má a.m.k. tvö dæmi þar sem litlu mátti muna að illa færi. Þekktasta dæmið er án efa Kúbudeilan 1962 en einnig urðu atvik árið 1983 (bilun í radarvarnarkerfi Sovétríkjanna og Able Archer heræfing NATO) sem hefðu getað leitt til þess að Sovétríkin hefðu ráðist á NATO ríkin með kjarnavopnum.
Mikilvægur hemill á framleiðslu og útbreiðslu kjarnorkuvopna eru ýmsir alþjóðlegir samningar sem gerðir hafa verið. Tímaritið The Economist telur hins vegar blikur á lofti á því sviði. Skipta má regluverkinu um kjarnorkuvopn í tvennt: Annars vegar eru samningar sem gerðir hafa verið milli ríkja sem þegar eiga kjarnorkuvopn og hins vegar er samningurinn um takmörkun á útbreiðslu slíkra vopna.
Hvað varðar samninga milli kjarnorkuríkja eyðir The Economist mestu púðri í SALT (Strategic Arms Limitations Talks) og START (Strategic Arms Reduction Treaty) samningana sem Bandaríkin og Sovétríkin/Rússland gerðu sín á milli og náðu til ýmissa gerða kjarnaflauga ríkjanna. Saga afvopnunarsamninga ríkjanna er í stuttu máli að ritað var undir SALT árið 1972. Í kjölfar hans hófust viðræður milli ríkjanna um SALT II og komust þau að samkomulagi um hann árið 1979. START samningurinn sem tók við af SALT II var undirritaður 1991 og var í gildi frá 1994 til 2009. Næsti samningur bar heitið SORT (Strategic Offensive Reductions Treaty) og tók hann gildi árið 2003. Árið 2010 komust ríkin tvö síðan að samkomulagi um svokallaðan NEW START samning. Hægt er að endurnýja hann árið 2021 en stjórnvöld í Rússlandi og Bandaríkjunum virðast ekki hafa mikinn áhuga á því. IDF (Intermediate-Range Nuclear Forces) samningurinn frá 1987 sem kveður á um bann við meðal- og skammdrægum flugskeytum á landi, bæði hefðbundnum sem og þeim sem geta borið kjarnaodda, er líka í hættu. Rússar vilja frekar losna við hann heldur en Bandaríkjamenn en þar eru þó líka ýmsir á móti honum m.a. John Bolton sem nýlega var skipaður þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta.
Samningurinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (Non-Proliferation Treaty (NPT)) var undirritaður árið 1968. Flest ríki heims eru aðilar að samkomulaginu þótt ekki hafi í krafti þess tekist að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna. Frá því að samningurinn var gerður hafa Indland, Norður-Kórea og Pakistan eignast þessi vopn og líklega einnig Ísrael. Ekkert þessara ríkja hefur skrifað undir samninginn að undanskildri Norður-Kóreu sem skrifaði undir hann að hluta árið 1985 og síðan að öllu leyti árið 1992 en dró sig síðan út úr honum árið 2003. Samstaða aðildarríkjanna fer líka þverrandi eins og kom fram þegar samningurinn var endurskoðaður árið 2015. Ekki bætir úr skák að í fyrra tóku ýmis ríki sig saman um svokallaðan Prohibition of Nuclear Weapons samning sem margir telja að hafi verið saminn til höfuðs NPT samningnum.
The Economist nefnir síðan tvö önnur fjölþjóðleg verkefni sem eiga að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna en hafa ekki gengið sem skyldi. Annað verkefnið er samningurinn um bann við tilraunasprengingum (The Comprehensive Test Ban Treaty) sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1996. Samningurinn tekur gildi þegar fjörtíu ríki sem búa yfir kjarnorkuþekkingu hafa staðfest hann en ennþá vantar átta ríki svo það takmark náist. Hitt verkefnið náði því ekki einu sinni að verða alþjóðlegur samningur. Hér er um að ræða samninginn um bann við framleiðslu kjarnakleyfra efna (The Fissile Material Cut-off Treaty) en um hann hefur verið rætt síðan árið 1993 án þess að nokkur samningsniðurstaða hafi náðst.
Þrennt grefur undan regluverkinu varðandi kjarnorkuvopn. Fyrst ber að nefna gagneldflaugakerfi. Þegar risaveldin tvö voru búin að koma sér upp vænu kjarnavopnabúri í kalda stríðinu skapaðist vopnajafnvægi milli þeirra sem stuðlaði að friðsamlegum samskiptum (meira og minna) á þessu tímabili. Hefði annað ríkjanna ákveðið að ráðast á hitt hefði það leitt til gagnkvæmrar gjöreyðingar, MAD (Mutually Assured Destruction). Ógnarjafnvægi þessara ára var reist á því að bæði ríkin gátu verið viss um að þau gætu valdið víðtæku tjóni hjá andstæðingnum („first and second strike capacity“ er þetta kallað á máli fræðimanna). Því gerðu þau með sér svokallaðan Anti-Ballistic Missile (ABM) samning árið 1972 sem átti að takmarka getu þeirra til að koma sér upp gagneldflaugakerfum (umræða um slík kerfi komst í hámæli á níunda áratugnum þegar Ronald Reagan Bandaríkjaforseti lagði til að Bandaríkin kæmu sér upp eldflaugavarnarkerfi sem í daglegu tali var kallað Stjörnustríðsáætlunin í höfuðið á vinsælum vísindaskáldsögukvikmyndum). Eftir að ráðist var á Bandaríkin 11. september árið 2001 ákváðu þarlend stjórnvöld að koma upp slíku kerfi til að vernda Bandaríkin og vinveitt ríki, sögðu þau þess vegna upp ABM-samningnum. Bandaríska kerfið er hannað til varnar gegn einstökum eða í versta falli nokkrum flaugum frá ótraustum ríkjum en ekki hundruðum eða jafnvel þúsundum flauga frá Rússlandi og Kína. Þrátt fyrir þetta hafa hvorki Rússar né Kínverjar trúað öðru en gagnflaugakerfið sé sett til höfuðs þeim, grefur það undan vilja þeirra til að taka þátt í afvopnunarviðræðum.
Hættan á tölvuárásum grefur einnig undan samningum um kjarnorkuvopn. Það er kunnara en frá þurfi að segja að á síðustu árum hefur tölvuárásum fjölgað mjög um heim allan og hafa sumar þeirra verið ansi skæðar og valdið umtalsverðu tjóni. Líkt og nánast öllu í nútímahernaði er kjarnorkuherafla stórveldanna að miklu leyti stjórnað af tölvukerfum. Hætta á tölvuárásum á kerfin skapar óvissu um gagnsemi þeirra og því þarf að taka þessi mál með í reikninginn í afvopnunarviðræðum. Litlar umræður hafa orðið á alþjóðavettvangi um áhrif tölvuárása á fælingarmátt kjarnorkuvopna og minnkar það vilja ríkja til þess að setjast niður og ræða hömlur á slíkum vopnum.
Lítill pólitískur vilji stendur líka í vegi fyrir frekari þróun afvopnunarsamninga. Svo virðist þvert á móti að þeir tveir sem halda um stjórnvölinn í ríkjunum sem ráða yfir stærstu kjarnorkuvopnabúrunum séu áfram um að fjölga vopnunum og bæta þau. Þannig hélt Vladimir Pútin Rússlandsforseti nýlega ræðu þar sem hann talaði mjög fjálglega um nýjar tegundir kjarnavopna sem Rússar væru að þróa og lauk síðan ræðu sinni með myndbandi sem sýndi sviðsetta rússneska kjarnorkuárás á Flórída. Erfitt er að átta sig á stefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í þessu máli. Hann hefur bæði stært sig af því að kjarnorkuherafli landsins verði efldur til muna á næstu misserum en einnig hefur hann gefið yfirlýsingar um að hann styðji afvopnun. Ný skýrsla um kjarnorkuheraflann (Nuclear Posture Review) gefur þó til kynna að frekar sé veðjað á fyrri kostinn.
Tvö nýleg dæmi má taka af því hvernig kjarnorkuhættan kann að vera að aukast:
- Íranir hafa áhuga á að eignast kjarnorkuvopn Við þessu var brugðist árið 2015 með samningi við þá en nú hefur Bandaríkjaforseti lýst yfir að hann hafi efasemdir um samninginn og fyrir stuttu kynnti Ísraelsstjórn gögn sem eru til þess fallin að minnka líkurnar á því að samningnum verði viðhaldið. Því getur svo farið að 12. maí næstkomandi samþykki Trump að setja aftur viðskiptaþvinganir á Íran sem myndi setja kjarnorkusamninginn við þá í uppnám. Íran kann því að verða kjarnorkuríki eftir nokkur ár. Gerist það eru góðar líkur á því að ýmis önnur ríki í Mið-Austurlöndum, s.s. Sádi-Arabía og Egyptaland, verði sér einnig úti um slík vopn.
- Stjórnvöld í Norður-Kóreu höfðu lengi haft áhuga á að eignast kjarnorkuvopn og nú er nokkuð liðið síðan þau náðu því markmiði. Ýmsar tilraunir hafar verið gerðar til að koma böndum á kjarnorkuvopnasmíði þeirra. Þær hafa allar runnið út í sandinn en nú eru vonir bundnar við fyrirhugaðan leiðtogafund Kims Jong-uns og Trumps Bandaríkjaforseta. Því miður eru ekki miklar líkur á að hann skili þeim árangri sem vonast er til. Hafa ber i huga að hugmyndafræðin sem leiðtogar N-Kóreu fylgja af mikilli sannfæringu og kallast Juche (sjálfsþurftarbúskapur) og þá sérstaklega afsprengi hennar Songun (herinn í öndvegi) gengur ekki síst út á að ríkið, það er að segja valdhafarnir, þurfi kjarnavopn sér til trausts og halds. The Economist spáir því þess vegna að á meðan Norður-Kórea verði til staðar verði vonir manna um að ríkið losi sig við kjarnavopn líklega aðeins loftkastalar.
Það eru því ýmis óveðursský við sjóndeildarhringinn varðandi útbreiðslu kjarnorkuvopna í heiminum. Hvað sem mönnum finnst um þessa tegund vopna eru líklega flestir á þeirri skoðun að óheft útbreiðsla þeirra sé ekki af hinu góða og því þurfi alþjóðasamfélagið að taka þennan málaflokk föstum tökum í framtíðinni.