Home / Fréttir / Kjarnorkuver í eign Rússa og frelsi Finna í utanríkis- og öryggismálum

Kjarnorkuver í eign Rússa og frelsi Finna í utanríkis- og öryggismálum

ROSATOM

Rússar hafa sagt afdráttarlaust að markmið þeirra sé að þrengja svigrúm Finna í öryggismálum og hindra að þeir geti að fullu lagað sig að þátttöku í samstarfsstofnunum Vesturlanda. Á þennan hátt lýsir Yrsa Grüne, sérfræðingur Hufvudstadsbladet í Finnlandi, niðurstöðu nýlegrar skýrslu um framgöngu Rússa í nágrenni Finnlands (sjá vardberg.is 1. september 2016).

Níu sérfræðingar við Utanríkismálastofnun Finnlands (FIIA), þar á meðal Teija Tiilikainen forstjóri, standa að skýrslunni. Útgefandi skýrslunnar er hins vegar finnska forsætisráðuneytið sem að mati Grüne gefur henni pólitíska vigt þótt áréttað sé að um niðurstöður rannsóknar sé að ræða. Það sama hafi gilt um NATO-skýrslu finnska utanríkisráðuneytisins vorið 2016.

Í skýrslunni segir að markmið Rússa í utanríkis- og hermálum hafi ekki breyst hins vegar hafi aðferðirnar við að ná þessum markmiðum greinilega tekið á sig nýja mynd.

Grüne segir að í stjórnarsáttmála finnsku ríkisstjórnarinnar segi að tryggt skuli athafna- og ákvarðanafrelsi stjórnvalda í utanríkis- og öryggismálum. Með þessum orðum sé átt við það sem kallað sé „NATO-kosturinn“ – rétturinn til að sækja um aðild að NATO. Þá felist einnig í orðalaginu árétting á því að Finnland sé hluti Vesturlanda – „Finnland er ekki Úkraína“ hafi oft verið sagt þegar Rússar innlimuðu Krím á ólögmætan hátt.

Sérfræðingarnir minna á sögulegan vanda Finna sem felst í því að sem nágrannar Rússa en einnig hluti Vesturlanda sé ekki nein einhlít vissa um rétt Finna til eigin ákvarðana. Þeir verði því stöðugt að minna á þennan rétt sinn og leggja rækt við hann annars sé hætta á að hann þrengist.

Eftir að skýrslan birtist 30. ágúst 2016 hefur verið skýrt frá því að fram hafi komið tillaga um að Finnar, Úkraínumenn, Georgíumenn og Moldavar gæfu út hlutleysisyfirlýsingu í því skyni að minnka spennu í nágrenni Rússlands. Grüne segir að þegar slíkum hugmyndum sé hreyft sé ástæða til að spyrja hvernig litið sé á Finnland á ákveðnum stöðum.

Yrsa Grüne segir að talsmenn Finnlands í utanríkismálum með Sauli Niinistö forseta í fararbroddi hafi hvað eftir annað sagt að Finnar taki eindregna afstöðu með stefnu ESB. Heimsókn Finnlandsforesta til Rússlands og heimsókn Vladimirs Pútíns Rússlandforseta til Finnlands skömmu fyrir ríkisoddvitafund NATO í Varsjá auk kröfu Finnlandsforseta um að ratsjársvara um borð í flugvélum hafi vakið umræður og spurningar í tengslum við tillögu Rússa um samninga við nokkrar sérvaldar þjóðir, þar á meðal Finna og Svía.

Grüne segir að með þetta allt í huga megi líta á skýrsluna frá FIIA sem sprengiefni. Þar segi nefnilega í fyrsta sinn fyrirvaralaust að Rússar beiti skýrar en áður mikilvægum orkugjöfum – gasi og olíu – til að ná pólitískum og strategískum markmiðum sínum. Sala á þessum orkugjöfum snúist ekki um viðskipti heldur efnahagsleg ítök og valdapólitík.

Hún bendir á að um þessar mundir sé olíverð lágt en á hinn bóginn sé lögð mikil áhersla á Nord Stream 2 gasleiðsluna frá Rússlandi á botni Eystralts til Þýskalands. Finnar virðist sannfærðir um að leiðslan verði lögð en með henni yrði vegið að hagsmunum Úkraínumanna sem hafi nú verulegar ríkistekjur af flutningi á rússnesku gasi um leiðslur í landi sínu, þær mundu hverfa eða minnka mjög vegna Nord Stream 2. Leiðslan gefi því Rússum færi á að auka þrýsting á Úkraínumenn og innan ESB séu menn því þeirrar skoðunar að lagning leiðslunnar sé mikilvægt pólitískt álitamál.

Sé litið til tilrauna Rússa til að ná pólitískum markmiðum með aðgerðum í orkumálum skipti þó kannski mestu máli hvað verði um fyrirhugað kjarkorkuver í Pyhäjoki í Finnlandi. Að reisa það hafi forgang hjá Rússum og hreinræktaða ríkisfyrirtæki þeirra Rosatom. „Að loknum löngum samningaviðræðum, ólíkum ákvörðunum á heimavelli og eftir að ljóstrað var upp um að króatíska fyrirtækið Migrit Solana Energija væri rússneskt felufyrirtæki féllust ríkisstjórn og þing á framkvæmdina,“ segir í skýrslunni. Þar er einnig minnt á að hlutafélagið Fortum sem ákvað að ganga inn í fyrirtækið Fennovoima, sem stendur að baki Pyhäjokio-framkvæmdinni, hafi viðurkennt opinberlega að pólitísk sjónarmið hafi mótað ákvörðunina.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að af hálfu Finna geri menn sér grein fyrir að finnsku Geisla- og kjarnorkuöryggistofnuninni (STUK) sem á síðasta orðið um kjarnorkuverið beri að fara að lögum við ákvörðun sína en ekki láta pólitíska hagsmuni ráða.

Yrsa Grüne lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Ekki er fjallað um aðild að NATO í skýrslunni þar sem um áhrif hennar var rætt í skýrslu sérfræðinganna sem birt var í vor. Flestir eru þeirrar skoðunar að með aðild að NATO yrðu gífurlega mikil pólitísk þáttaskil í utanríksstefnu Finnlands. Aðrir segja að þessi þáttaskil hafi þegar orðið.

Boðskapurinn mætti í raun vera skýrari.“

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …