Home / Fréttir / Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Kjarnorkukafbáturinn Kazan í rússneska Norðurflotanum.

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í höfn höfuðborgar Kúbu. Havana, 12. til 17. júní.

Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar Barents Observer, segir frá þessu fimmtudaginn 6. júní.

„Heimsóknin er í samræmi við söguleg vináttutengsl Kúbu og Rússneska sambandsríkisins,“ sagði í tilkynningu ráðuneytis byltingarhersins á Kúbu. Í tilkynningunni tekur ráðuneytið sérstaklega fram: „Ekkert skipanna ber kjarnavopn“.

Nilsen segir að þessi skip Norðurflotans hafi siglt frá Kólaskaganum út á Norður-Atlantshaf 17. maí. Herskipin eru freigátan Admiral Gorshkov, olíuskipið Pashin og björgunar- og dráttarskipið Nikolai Tsjíker auk kafbátsins Kazan

Þegar Admiral Gorshkov var einhvers staðar undan strönd Noregs setti áhöfn skipsins sig í æfingarstellingar og miðaði vopnum sínum að P-8 flotaeftirlitsflugvél undir merkjum NATO.

Nú í vikunni birti fréttadeild Norðurflotans annað myndskeið frá freigátunni sem sýndi áhöfn hennar senda á loft þrjá litla dróna sem urðu skotmörk við fallbyssuæfingu.

Um borð í freigátunni er Ka-27M þyrla og var hún nokkrum sinnum send á loft til eftirlitsæfinga þegar siglt var suður Atlantshaf.

Í tilkynningu Norðurflotans segir að þyrlan hafi farið í allt að 200 km fjarlægð frá skipunum og í allt að 1.000 m hæð.

Fyrsta tilkynningin um að skipin væru væntanleg til Kúbu kom frá varnarmálaráðuneytinu þar fimmtudaginn 6. júní. Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði ekki neitt um að Havana yrði fyrsti viðkomustaður á siglingunni sem hófst í maí og sagt var að standa myndi í „nokkra mánuði“ og yrði um „heimshöfin“.

Admiral Gorshkov er forystuskip í flokki nýjustu freigátna Rússa. Skipið var tekið í notkun árið 2018. Freigátan getur borið þrjár gerðir stýriflauga og einnig tundurskeyti gegn kafbátum.

Kafbáturinn Kazan er af Jasen-M-gerð og var honum hleypt af stokkunum árið 2017 en tekinn í notkun af flotanum árið 2021. Hann getur borið tvær tegundir af stýriflaugum. Kafbáturinn er sagður hljóðlátasti í rússneska kafbátaflotanum.

Rússneskur Jasen-M-kafbátur hefur aldrei áður heimsótt höfn utan Rússlands.

Freigátan Admiral Gorshkov heimsótti Havana í fyrsta skipti árið 2019. Veturinn 2023 var skipinu siglt um Norður- og Suður-Atlantshaf og tók þátt í æfingu með sjóherjum Kína og Suður-Afríku fyrir utan að heimsækja Höfðaborg í S-Afríku.

Skoða einnig

Sögulegt samkomulag í stórþinginu um stórauknar varnir Noregs

Norska stórþingið samþykkti einróma þriðjudaginn 4. júní langtímaáætlun í varnarmálum. Þingmenn eru meðal annars sammála …