Home / Fréttir / Kjarnavopn rædd í austri og vestri

Kjarnavopn rædd í austri og vestri

Rússneskir hermenn við skotpall á æfingu.

Oleksandr Lytvynenko, forstjóri þjóðaröryggisráðs Úkraínu, segir í samtali við The Times í London mánudaginn 17. júní að Vladimir Pútin Rússlandsforseti kunni að gefa fyrirmæli um beitingu kjarnavopna á vígvellinum verði þrengt illilega að rússneska hernum í orrustum í Úkraínu.

Leiðtogar G7-ríkjanna komu saman á Ítalíu í liðinni viku og vöruðu Rússa við „alvarlegum afleiðingum“ þess ef þeir beittu efna-, geisla- eða kjarnavopnum

Lytvynenko er spurður að því við hvaða aðstæður kynni hugsanlega að koma til ákvarðana Pútins um notkun vígvallakjarnavopna.

„Við getum ekki útilokað neitt ef Rússar telja sig á barmi hrikalegs ósigurs,“ segir hann við The Times og bætir við að slíkur ósigur gæti leitt til þess að víglína Rússa brysti, hermenn gerðust liðhlaupar og efnt yrði til mótmæla í Moskvu.

Hann áréttar að hrikalegur ósigur á vígvellinum yrði ekki óhjákvæmilega til þess að Pútin gripi til vígvallarkjarnavopna og hann telur jafnframt að Pútin beiti ekki gjöreyðingarvopnum á meðan Rússar telji sig hafa yfirhöndina í stríðinu.

Með vígvallarkjarnavopnum Rússa, sem einnig eru kölluð skammdræg kjarnavopn, er vísað til vopna sem beitt yrði í Evrópu og Asíu en langdrægum kjarnavopnum yrði skotið á skotmörk í Bandaríkjunum.

Í febrúar sagði The Financial Times í London, og vísaði í áður óþekkt trúnaðargögn, að aldrei fyrr hefði þröskuldur Rússa vegna beitingar vígvallarkjarnavopna verið jafnlágur og núna.

Um er að ræða 29 rússnesk hernaðarskjöl sem samin voru á árunum 2008 til 2014. Á það er bent í blaðinu að þrátt fyrir aldur skjalanna séu þau enn lögð til grundvallar í hernaðarstefnu Rússa.

Varnaðarorð Stoltenbergs

Sama dag og The Times í London birtir viðtalið við forstjóra þjóðaröryggisráðs Úkraínu er viðtal við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, í The Telegraph þar sem hann hvetur til þess að rykið verði dustað af flaugum kjarnorkuveldanna í NATO, Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands. Það sé nauðsynlegt til að gefa „fjandmönnunum“ viðvörun.

„Ég vil ekki fara í smáatriði varðandi framkvæmdina, hve margir kjarnaoddar verða til taks og hve margir í geymslum. Við verðum hins vegar að ræða þetta og það gerum við einmitt núna.“

Í blaðinu segir að nú sé til umræðu innan bandalagsins hvernig staðið skuli að því að losa um flaugar í vopnabúrum bandalagsríkja.

Stoltenberg leggur ríka áherslu á gagnsæi við töku allra ákvarðana um kjarnorkuvopn á vettvangi NATO til að búa bandalagið undir „hættulegri heim“.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …