Home / Fréttir / Kjarnaoddum fjölgar hjá Rússum á Kóla-skaga

Kjarnaoddum fjölgar hjá Rússum á Kóla-skaga

Eldflaugakafbátnum Vladimír Monomakh lagt við bryggju íGadzhievo-stöð rússneska norðurflotans á Kólaskaga.
Eldflaugakafbátnum Vladimír Monomakh lagt við bryggju í Gadzhievo-stöð rússneska norðurflotans á Kólaskaga.

Kjarnaoddum eldflauga um borð í rússneskum kafbátum hefur fjölgað um 87 síðan í september 2015. Þetta þýðir að Rússar eiga nú 185 langdræga kjarnaodda umfram það sem heimilt er samkvæmt nýja START-samkomulaginu. Talan jafngildir nærri fjölda kjarnaodda um borð í tveimur kafbátum af Borei-gerð í rússneska norðurflotanum.

Borei-kafbátarnir Júrí Dolgorukíj og Vladimír Monomakh geta hvor um sig borið 96 kjarnaodda séu sex oddar settir á hverja af 16 eldflaugum um borð í þeim. Samtals geta bátarnir því flutt 192 kjarnaodda.

Þetta segir Thomas Nilsen á vefsíðunni The Independent Barents Observer mánudaginn 4. apríl. Hann bendir á að nýjustu samtölur sem bandaríska utanríkisráðuneytið hafi birt sýni að 1. mars 2016 hafi Rússar átt 1.735 virka langdræga kjarnaodda. Það sé 87 odda fjölgun frá 1. september 2015 þegar þeir voru 1.648.

Tölurnar sýna ekki hvernig fjöldi kjarnaoddanna skiptist milli kafbáta, langdrægra sprengiflugvéla og á skotpalla á landi. Nilsen segir að líklegast sé að kjarnaoddunum hafi fjölgað um borð í kafbátum sem halda út á heimshöfin frá Gadzhievo-stöð norðurflotans á Kólaskaga.

Í nýja START-samkomulaginu frá 2011 segir að hvorki Bandaríkjamenn né Rússar megi eiga meira en 1.550 langdræga kjarnaodda hvor þegar samkomulagið gengur í gildi 2018. Rússar fækka ekki oddum sínum heldur fjölga þeim kjarnorkuvopnum sem eru í skotstöðu.

Frá 1. september 2015 til 1. mars 2016 hafa Bandaríkjamenn fækkað langdrægum kjarnaoddum sínum um 57 frá 1.538 í 1.481. Þar með eru Bandaríkjamenn nú þegar innan markanna sem eiga að gilda frá 2018.

Um þessar mundir eru átta kjarnorkukafbátar með langdrægar eldflaugar úr norðurflota Rússa á sveimi í Barentshafi. Sex af Delta-IV gerð og tveir af Borei-gerð. Aleksandr Nevskíj, þriðji kafbáturinn af Borei-gerð, var fluttur til Kyrrahafsflotans í fyrra. Síðar í ár verður Vladimir Monomakh siglt um Norður-Íshaf til heimahafnar í Kyrrahafsflotanum.

Nú eru alls 128 eldflaugar um borð í kafbátunum átta í norðurflotanum og 576 kjarnaoddar. Auk þessara kjarnorkuvopna með heimahöfn á Kóla-skaganum er talið að fleiri séu í vopnabúrum flotans í Okolnaja fyrir norðan Severomorsk við Kóla-flóann.

Í nýja START-samkomulaginu er aðeins fjallað um langdræg kjarnorkuvopn. Enn hvílir mikil leynd yfir skammdrægum kjarnorkuvopnum. Matið á fjölda þeirra er mismunandi en sérfræðingar telja að Rússar eigi enn 1.000 til 6.000 skammdræg kjarnorkuvopn. Þau séu að mestu í vopnabúrum.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …