
Kínverska sendiráðið í Manila á Filippseyjum sendi nýlega frá sér myndband helgað þeim sem standa í framlínunni vegna COVID-19. Myndbandið ýtti hins vegar fljótt undir víðtæka reiði meðal netverja á Filippseyjum vegna þess að í texta í lagi sem er sungið á myndbandinu er óbeint vikið að Suður-Kínahafi sem heimamenn í Manila nefna Vestur-Filippíuhaf.
Tónlistarmyndbandið með laginu Iisang Dagat (Eitt haf) var gefið út 23. apríl. Huang Xilian, sendiherra Kína, samdi textann en Xia Wenxin, starfsmaður sendiráðsins, söng hann með landskunnu fólki frá Kína og Filippseyjum.
Í textanum segir frá vináttu þjóðanna tveggja og sameiginlegri baráttu þeirra við heimsfaraldurinn. Kínverska sendiráðið nýtti Twitter til að endursegja textann: Vinveittir nágrannar beggja vegna hafsins, Kínverjar og Filippseyingar, taka áfram höndum saman og leggja sig alla fram um að sigrast sem fyrst á COVID-19.
Í upphafi myndbandsins sést sjómaður við veiðar á litlum báti á Manillaflóa. Þessi mynd og heiti lagsins leiddu huga margra Filippseyinga óhjákvæmilega að því að kínversku sendiráðsmennirnir vildu gera lítið úr deilum um yfirráð á Suður-Kínahafi.
Myndbandið vakti ólund mjög margra. Þegar þessi frétt var skrifuð í lok fyrri viku höfðu 212.000 sagt að þeim líkaði ekki við það en aðeins 3.700 tóku þau vel.
Tveimur dögum fyrir opinbera birtingu myndbandsins mótmælti stjórn Filippseyja formlega við stjórn Kína vegna tveggja atvika á hafi úti. Fyrra atvikið varð þegar herskip í flota Alþýðuhersins beindi ratsjárbyssu geg herskipi Filippseyja í lögsögu eyjanna 17. febrúar. Seinna atvikið sneri að því að hluti af yfirráðasvæði væri færður undir kínverska stjórnsýslu í opinberum skjölum Kínastjórnar.
Margir töldu það ósannfærandi og illkvittið að birta söngljóð um vináttu strax eftir að sama nágrannaríki. Tilgangurinn væri að beina athygli almennings frá yfirgangi Kínverja í garð Filippseyinga. Myndbandið hvatti Filippseyinga ekki til að virða COVID-19-samstarf við Kínverja heldur hafði þveröfug áhrif og magnaði reiði almennings í garð kínversku ríkisstjórnarinnar fyrir að búa til eyjar til að geta kastað eignarhaldi á hluta af hafsvæðum á yfirráðasvæði Filippseyja.
Ótrúlegar óvinsældir lagsins og myndbandsins frá sendiráðinu urðu til þess að það sem átti að sýna vinsemd Kínverja, lyf, hjúkrunargögn og aðrar gjafir til að glíma við COVID-19 snerist í andhverfu sína og tók á sig ímynd óviðeigandi pólitísks þrýstings. Nú gruna menn Kínverja ekki aðeins um græsku heldur líta þá illu auga vegna aðstoðar þeirra.
Filippseyskur öldungadeildarþingmaður lagði meira að segja til að Kínverjar ættu að standa undir COVID-19-útgjöldum Filippseyinga og yrði litið á það sem endurgjald fyrir eyðileggingu þeirra á auðlindum sjávar í Suður-Kínahafi.
Heimild: The Diplomat.