Home / Fréttir / Kissinger snýst hugur um Úkraínu milli Davos-funda

Kissinger snýst hugur um Úkraínu milli Davos-funda

Henry Kissinger (99 ára), fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er fastafyrirlesari á Davos-ráðstefnu stjórnmála- og fjármálamanna. Hann er raunsæismaður (realisti) í utanríkis- og öryggismálum og tekur „kalda afstöðu“ til þróunar heimsmála.

Þegar hann talaði í Davos í fyrra var niðurstaða greiningar hans á stöðunni í Úkraínu á þann veg að Úkraínumenn ættu að gefa eftir landsvæði til Rússa með vísan til „jafnvægis“ í Evrópu. Þá sagði hann að hlutlaus Úkraína ætti að vera „lokamarkmiðið“.

Úkraínustjórn mótmælti þessari skoðun harkalega. Hún hefði hvorki áhuga á að afhenda Rússum land né falla frá áhuga sínum á aðild að NATO. Vestrænir friðmælendur gagnvart Rússum tóku boðskap Kissingers hins vegar fagnandi. Þeir töldu sig sem raunsæismenn eins og hann og sögðu Kissinger renna stoðum undir þá skoðun að það væri NATO og aftur NATO sem stuðlaði að ófriði í Úkraínu og ögraði Rússum. Hreinræktaðir Pútinistar á Vesturlöndum töldu Kissinger einfaldlega hafa afhent sér gullmola.

Nú er tæplega eitt ár frá því að Vladimir Pútin Rússlandsforseti sendi innrásarherinn inn í Úkraínu og Kissinger hefur að nýju talað í Davos.

Nú hefur hann uppfært skoðun sína á stöðu Úkraínu í Evrópu. Nú er það kalt mat raunsæismannsins að miðað við gang stríðsins sé nauðsynlegt að taka nýjan pól í hæðina: Það er ekki „lengur skynsamlegt“ að Úkraína verði hlutlaus. Þess í stað eigi að líta á það sem „hæfilega niðurstöðu“ að Úkraína gangi í NATO.

Kissinger er enn þeirrar skoðunar að í friðarsamningi eigi Úkraínumenn að lýsa vilja til að láta af hendi land. Hann hefur hins vegar horfið frá meginályktun margra aðdáenda greiningar hans á valdahlutföllunum, að útþensla NATO til austurs hafi grafið undan stöðugleika í Evrópu.

Nú liggur fyrir að frá upphafi var alvarleg brotalöm í „raunsæiskenningu“ Kissingers – það var vegna þess að ekki var áhugi innan NATO á að Úkraína gengi í bandalagið sem skapaði hættu fyrir Úkraínumenn en ekki að innan NATO væri áhugi á aðild þeirra.

Nú velta fréttaskýrendur fyrir sér hve margir af aðdáendum gömlu kenningar Kissingers um örlög Úkraínu aðhyllast nýju kenningu hans og taki aðild Úkraínu að NATO fagnandi.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …