Home / Fréttir / Kissinger fagnað sem „gömlum vini“ í Peking

Kissinger fagnað sem „gömlum vini“ í Peking

Henry Kissinger og Xi Jinping í Peking 20. júlí 2023.

Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var fagnað af Xi Jinping Kínaforseta sem „gömlum vini“ þegar þeir hittust í Peking fimmtudaginn 20. júlí. Forsetinn viðurkenndi að samskiptin við Bandaríkin væru nú á „krossgötum“.

Nú eru 52 ár frá fyrstu heimsókn Kissingers til Kína. Hann lagði af hálfu Bandaríkjastjórnar grunn að tengslum milli landanna. Kissinger varð fyrstur háttsettra bandarískra embættismanna til að heimsækja kommúnistastjórnina í Kína árið 1971. Leynilegir fundir hans í Peking opnuðu Richard Nixon Bandaríkjaforseta leið til Kína ári síðar.

Kissinger varð 100 ára í maí, og nú óskaði Kínaforseti honum „langlífis við góða heilsu“. Xi sagði að fyrsta heimsókn Kissingers hefði haft „mikið sögulegt gildi“ og markað „þáttaskil“ í samskiptum Kína og Bandaríkjanna.

„Kínverska þjóðin gleymir aldrei góðum vinum sínum og samskipti Kína og Bandaríkjanna verða ætíð tengd nafni Henrys Kissingers,“ sagði forsetinn.

Xi vakti máls á því að þjóðirnar tvær væru nú á mikilvægum tímamótum: „Enn á ný standa Kínverjar og Bandaríkjamenn á krossgötum og þurfa að velja leið þaðan.“

Xi Jinping hitti Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í júní. Þá sagði forsetinn að stjórnir landanna hefðu „náð samkomulagi“ um „sérgreind málefni“.

Blinken sagði að fulltrúar þjóðanna væru sammála um að þeir yrðu að skapa stöðugleika í samskiptum sínum og Bandaríkjamenn myndu vinna með Kínverjum að verkefnum sem snertu gagnkvæma hagsmuni þeirra eins og að því er varðar fæðuöryggi. Blinken lýsti þó jafnframt áhyggjum yfir „ögrandi“ framgöngu Kínverja á Tævansundi.

Kissinger hefur oftar en 100 sinnum heimsótt Kína. Hann var síðast í Peking árið 2019. Bandaríska utanríkisráðuneytið sagði að Kissinger hefði sjálfur átt frumkvæði að Kínaför sinni núna. Hann hitti einnig forystumann Kína í utanríkismálum, Wang Yi, og Li Shangfu varnarmálaráðherra.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …