Home / Fréttir / Kissinger bindur vonir við jákvæð áhrif Breta utan ESB á Atlantshafssamstarfið

Kissinger bindur vonir við jákvæð áhrif Breta utan ESB á Atlantshafssamstarfið

 

Henry Kissinger
Henry Kissinger

Henry Kissinger (94 ára), fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna og þjóðaröryggisráðgjafi, segir að úrsögn Breta úr ESB (Brexit) veiti Bretum tækifæri til að endurnýja Atlantshafssamstarfið, grundvöll Atlantshafsbandalagsins, en það yrðu mistök ef Bretar segðu alveg skilið við Evrópu.

Kissinger flutti ræðu á ráðstefnu í London þriðjudaginn 27. júní og sagðist hafa tekið þá „sjálfkrafa“ afstöðu þegar boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildina í Bretlandi að styðja aðild af því að það væri „kunnuglegt“  að hafa Breta í ESB. Hann hefði síðan hugsað málið nánar í því ljósi að nauðsynlegt væri að „skerpa að nýju Atlantshafssamstarfið“ og nú teldi hann að Brexit gæti styrkt hlutverk Breta.

Kissinger sagði á ráðstefnunni í London sem haldin var á vegum hugveitunnar Centre for Policy Studies:

„Mér fannst [við nánari umhugsun] að Bretar gætu að nýju lagt rækt við sögulegt framlag sitt við brúargerð yfir Atlantshaf og sem leiðtogi vestræna heimsins í öryggismálum. Eftir því sem þessum viðræðum miðar fram vona ég enn að Bretar geti áfram gegnt hlutverki sínu við að móta Atlantshafssamstarfið á þann veg að samhliða minnkun tengsla við Evrópu aukist tengslin við Bandaríkin.

Þess verði jafnframt gætt að Bretar segi ekki alfarið skilið við Evrópu heldur leggi sitt af mörkum til Atlantshafssamstarfsins á þann veg sem hentar vel breyttum heimi.“

Hann sagði að Atlantshafsbandalagið hefði breyst mikið síðan kalda stríðinu lauk – ný ríki hefðu komið til sögunnar og þjóðríkið sjálft væri á undanhaldi. Hann hvatti til endurskipulags á NATO og varaði við að Kínverjar kynnu að fylla tómarúmið nema ráðamenn á Vesturlöndum tileinkuðu sér skarpari strategíska hugsun.

Kissinger sagði að samvinnan innan NATO ætti að snúast um meira en 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt ríki sé árás á þau öll. Hann vék ekki einu orði að Donald Trump Bandaríkjaforseta. Kissinger sagði:

„Haldi Vesturlönd sér til hlés og skapa ekki stöðugleika láta Kínverjar og Indverjar að sér kveða auk Rússa. Það verður umbylting í heimsmálum. Verði Vesturlönd aðilar að átökum án strategískrar stefnu leiðir það til upplausnar.“

Í tíð Richards Nixons Bandaríkjaforseta fyrir rúmum 40 árum lagði Kissinger á ráðin um ný samskipti Bandaríkjamanna við Kínverja. Hann sagði Kínverja nú nálgast að hafa jafnmikil strategísk áhrif og Bandaríkjamenn.

Hann sagði að framtak Kínastjórnar sem hún kennir við „belti og braut“ gæti fært geopólitíska þungamiðju heimsins frá Atlantshafi til miðhluta Asíu þar sem Íran, Indland og Tyrkland yrðu lykilríki.

Hann sagði einnig að þjóðríkið og gamla skipan heimsmála væri að hrynja í Mið-Austurlöndum. Áður fyrr hefði verið unnt að stofna til nauðsynlegra bandalaga á svæðinu en það yrði sífellt erfiðara. „Gamla mottóið um að óvinur óvinar þíns sé vinur þinn á ekki lengur við í Mið-Austurlöndum. Nú er hann líklega einnig óvinur þinn,“ sagði Kissinger.

Hann sagði að skipan heimsmála hefði verið reist á samvinnu og samkeppni þjóðríkja innan ramma viðurkenndra reglna. Nú væri hins vegar svo komið að stóru verkefnin sem blöstu við ráðamönnum Vesturlanda væri ekki lengur unnt að leysa innan þessa kerfis, einmitt þess vegna væru þau svo erfið viðureignar.

Kissinger sagðist andvígur samfélagsmiðlum og nútímatækni, netheimurinn væri að breyta mannlegu eðli. „Allt gerist samstundis án kröfu um skipulagða hugsun. Þegar fá má upplýsingar tafarlaust með því að þrýsta á hnapp tapar maður tækifærinu til yfirvegunar,“ sagði hann og það leiddi til „sjálfsupphafningar og tilfinningasemi“.

 

Heimild: The Guardian.

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …