Home / Fréttir / Kínverskur njósnabelgur veldur pólitísku uppnámi

Kínverskur njósnabelgur veldur pólitísku uppnámi

Eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping Kínaforseti hittust í nóvember 2022 var talið að tekist hefði að bæta samskipti stjórnvalda ríkjanna og slá á nokkurra ára tortryggni og kraumandi spennu í samskiptum þeirra. Nú um helgina ætlaði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Peking og efla enn samstarfsandann frá því í nóvember.

Ekki þurfti þó annað en loftbelg til að setja allt úr skorðum.

Í vikunni fannst það sem talsmenn Bandaríkjahers kalla „hálofta eftirlitsbelg“ á sveimi yfir Montanaríki í Bandaríkjunum og Blinken hætti föstudaginn 3. febrúar við Kínaferð sína. Fréttaskýrendur segja að ákvörðun Blinkens sýni hve samskipti ríkjanna séu viðkvæm, á milli þeirra ríki í raun spenna og keppni um foystu á sviði hermála, heimsstjórnmála og tækniyfirburða.

Talsmenn beggja bandarísku stjórnmálaflokkanna lýstu mikilli reiði vegna ferða kínverska eftirlitsbelgsins og sumir krefjast þess að honum verði grandað, skotinn niður. Svigrúm Bidens og stjórnar hans er ekki mikið í málinu þótt Kínverjar hafi gripið til þess óvenjulega ráðs að biðjast afsökunar á ferðum belgsins.

Af hálfu stjórnvalda landanna eru tvær ólíkar skýringar á því hvað svífi í háloftunum. Bandaríkjamenn segja belginn notaðan „til njósna“ en Kínverjar segja hann borgaralegan og notaðan í vísindaskyni, hann hafi hrakist af leið.

Wang Yi, utanríkismálastjóri kínverska kommúnistaflokksins, sagði Blinken í símtali að kvöldi föstudags 3. febrúar að Kína væri ábyrgt land og hefði ætíð farið stranglega að alþjóðalögum.

Kínverski njósnabelgurinn yfir Bandaríkjunum olli miklum áhyggjum meðal bandarískra þingmanna, ekki síst vegna þess að þeir höfðu skömmu áður fengið trúnaðarupplýsingar um atvik þar sem talið er að andstæðingar Bandaríkjanna hafi hugsanlega beitt hátækni til njósna æur lofti í landinu.

Þingmönnum var í janúar í trúnaði skýrt frá að minnsta kosti tveimur atvikum þar sem annað ríki stundaði eftirlit úr lofti með hátækni sem ekki hefði sést áður. Ekkert ríki var nafngreint í þessari trúnaðarskýrslu bandarískra embættismanna en The New York Times (NYT) hefur laugardaginn 4. febrúar eftir tveimur embættismönnum sem þekkja til málsins að Kínverjar hafi líklega staðið að baki eftirlitinu.

Kínverskir embættismenn sögðu föstudaginn 3. febrúar að kínverski loftbelgurinn yfir Montana væri einkum notaður til veðurfræðilegra rannsókna. Bandarískir embættismenn sögðu á hinn bóginn að þeir teldu um að ræða tæki til upplýsingaöflunar. Með belgnum væri þó ekki unnt að afla jafn viðkvæmra upplýsinga og háþróaðir kínverskir gervihnettir söfnuðu nú þegar.

Í NYT segir að Pentagon telji að Kínverjar verji um 209 milljörðum dollara, eða 1,3% af vergri landsframleiðslu sinni, alls til hermála. Í Washington beinist áhyggjur stjórnvalda ekki síst að fjármögnun tækni sem nýta megi til hernaðar eða njósna.

Embættismenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins telja að Kínverjar fylgist með því sem gerist á þjálfunar- og æfingasvæðum Bandaríkjahers, það sé liður í að afla upplýsinga um hvaða þjálfun bandarískir flugmenn fái og hvernig staðið sé að framkvæmd flókinna hernaðaraðgerða. Staðirnir sem séu undir óeðlilegu eftirliti séu bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra.

Frá árinu 2021 hafa 366 atvik verið könnuð á vegum bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon, af því engin skýring var á þeim. Í 163 tilvika komu belgir við sögu. Nokkrir þeirra voru háþróaðir til eftirlits en engum var haldið stöðugt yfir bandarískum herstöðvum. Þegar rætt er um njósnabelgi er annars vegar um óþekkta að ræða og hins vegar þá sem auðsjáanlega eru notaðir til njósna. Þeir síðarnefndu eru ekki í þeim tölum sem hér eru nefndar, aðeins óþekktir belgir.

Bandarískir embættismenn segja að almennt sé litið á njósnabelgi sem frekar frumstæð tæki til upplýsingaöflunar og þar sem þeir eða aðrir belgir hafi ekki svifið lengi í senn yfir bandarísku landi hafi ferðir þeirra til þessa ekki valdið miklum áhyggjum í Pentagon eða annars staðar innan bandaríska stjórnkerfisins.

Í fyrrgreindri skýrslu til þingmanna er bent á atvik þar sem nýrri hátækni er beitt á þann hátt að tilefni þykir til sérstakrar aðgæslu og ábendinga til stjórnvalda. Er talið að frekari rannsókna sé þörf og ef til vill sé nýtt tækni sem ekki hefur tekist að skilja eða lýsa á opinberum vettvangi. Í skýrslunni er sá fyrirvari settur að ratsjár eðs nema kunni að skorta getu til nægilega öflugrar greiningar og þess vegna kunni ósköp venjulegur hlutur að sýnast ógnandi.

NYT segir ekki ljóst hve rækilega það hafi verið staðfest að Kínverjar noti háþróaða tækni sem Bandaríkjamenn hafi ekki á valdi sínu. Ýmsir bandarískir embættismenn efast um að Kínverjar taki þá áhættu að nota háþróuðustu tæki sín þannig að hætta sé á að Bandaríkjamönnum takist að grandskoða þau.

 

Heimild: NYT

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …