
Nýr ísbrjótur Kínverja, Xue Long 2, Snædrekinn 2, hélt úr heimahöfn sinni júlí Shanghai miðvikudaginn 15. júlí og tók stefnu norður með strönd Kína í átt að Norður-Íshafi. Þetta er fyrsta ferð skipsins á norðurslóðir. Skipið var tekið í notkun á árinu 2019. Fyrr á þessu ári fór skipið í leiðangur til Suðurskautsins.
Xinhua-fréttastofan segir að norðurleiðangurinn sé skipulagður af kínverska náttúruauðlinda-ráðuneytinu. Undir lok september er von á skipinu aftur til Shanghai eftir um 12.000 sjómílna siglingu.
Vísindamenn um borð í skipinu rannsaka líffræðilegan fjölbreytileika í á norðurslóðum, súrnun hafsins og mengunarvalda ætlunin er að fara vestur á hafsvæðið undan strönd Kanada auk þess að kanna miðhluta Norður-Íshafs.
Markmiðið er að auka þekkingu Kínverja á áhrifum loftslagsbreytinga á Norður-Íshaf og treysta grunninn undir markvissari viðbrögð vegna loftslagsbreytinganna, segir Xinhua.
Kínverska heimskautastofnunin á og rekur Xue Long 2 (122 m langur) en stofnunin hefur átt aðild að 10 kínverskum rannsóknarleiðöngrum á norðurslóðir.
Nú í ágúst eru átta ár frá því að kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn kom Norðurleiðina til Reykjavíkur og hélt héðan yfir Norður-Íshaf í leit að siglingaleiðum fyrir norðan stjórnsvæði Rússa. Snædrekinn hefur einnig siglt Norðvesturleiðina, undan ströndum Kanada.