Stjórnvöld á Tævan, sjálfstæðri eyju undan strönd Kína sem stjórnvöld í Peking líta á sem hluta veldis síns, segja að alls hafi 39 kínverskum hervélum verið inn á loftvarnasvæði eyjunnar laugardaginn 2. október. Kínverski flugherinn hefur aldrei fyrr sent svo margar vélar inn á loftvarnasvæðið.
Tævanska varnarmálaráðuneytið segir að vélarnar hafi komið í tveimur bylgjum, um 20 um miðjan dag og 19 að kvöldi.
Daginn áður, föstudaginn 1. október, sendi kínverska flugherstjórnin 38 vélar inn á loftvarnasvæðið, þeirra á meðal voru sprengjuvélar sem geta borið kjarnorkusprengjur.
Í rúmt ár hafa stjórnvöld á Tævan kvartað undan endurteknum ögrunum kínverskra hervéla í nágrenni við eyríkið.
Su Tseng-chang, forsætisráðherra Tævans, sagði 2. október við blaðamenn að hernaðarbrölt Kínverja ögraði friði á svæðinu. Frá Peking hefur hvorki heyrt hósti né stuna til á skýringar á ferðum hervélanna. Áður en núverandi syrpa hófst sögðu kínversk yfirvöld að þau yrðu að verja fullveldi sitt og stjórnir Tævans og Bandaríkjanna ættu í „leynimakki“.
Tævanir draga loftvarnasvæði sitt utan yfirráðasvæðis síns og lofthelgi sinnar. Á svæðinu er greint hvaða erlendu flugvélar eru á ferð og fylgst er með þeim til gæslu þjóðaröryggis. Loftvarnasvæðið er reist á einhliða yfirlýsingu Tævana og tæknilega má líta á það sem alþjóðlegt flugsvæði.
Tævanir bregðast við ferðum kínversku vélanna með því að senda eigin herþotur í veg fyrir þær og með því að virkja flugskeytakerfi.