Home / Fréttir / Kínverski belgurinn varð að braki yfir Atlantshafi

Kínverski belgurinn varð að braki yfir Atlantshafi

Skotrreykur á lofti og brak á leið til jarðar.

Bandaríkjaher skaut niður kínverskan loftbelg laugardaginn 4. febrúar. Hann hafði verið í tæpa viku á sveimi þvert yfir Bandaríkin. Á fimm dögum fór belgurinn frá ríkinu Idaho í norðvestri yfir til Karólínuríkjanna í suðaustri og þaðan út á Atlantshaf þar sem hann var skotinn niður, skömmu eftir að hann var kominn út á opið haf frá Suður-Karólínu.

Tvær F-22 orrustuþotur voru sendar frá Langley flugherstöðinni og skaut önnur þeirra Sidewinder flugskeyti á belginn. Hann var þá í 60.000 til 65.000 feta hæð. F-22 þoturnar voru í 58.000 feta hæð og fylgdu þeim aðrar bandarískar orrustuvélar.

Varnarmálaráðuneytið gaf flotanum og strandgæslunni fyrirmæli um að leita að braki úr belgnum sem lenti á tiltölulega grunnu hafsvæði. Gera bandarískar öryggisstofnanir sér vonir um að brakið komi að gagni við að greina til hvers Kínverjar sendu belginn í þennan leiðangur og með hvaða tæki.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins lýsti „mikilli óánægju og mótmælum“ í garð Bandaríkjamanna. Bandarískum stjórnvöldum hefði hvað eftir annað verið greint frá því að belgurinn væri borgaralegt loftfar sem hefði óvart flogið yfir Bandaríkin, um „hreina slysni“ væri að ræða. Viðbrögð Bandaríkjamanna hefðu verið „allt of hörð og alvarlegt brot á alþjóðasamþykkt“. Kínverjar mundu af þunga verja lögmætan rétt sinn og hagsmuni og þeir áskildu sér rétt til „frekari andsvara“.

Bandaríkjaforseta var gert viðvart um loftbelginn yfir Idaho þriðjudaginn 31. janúar. Þegar hann flaug yfir í Montanaríki 1. febrúar breyttist ferð hans í pólitískt vandamál í samskiptum Bandaríkjamanna og Kínverja. Bandaríska varnarmálaráðuneytið varaði við því að belgurinn, sem er að breidd eins og þrír strætisvagnar, yrði skotinn niður yfir landi þar sem brak úr honum kynni að skaða fólk og mannvirki. Ráðuneytið sagðist ekki líta á belginn ógn við þjóðaröryggi, kínversk gervitungl gætu aflað mun meiri upplýsinga úr lofti en hann.

Embættismenn í varnarmálaráðuneytinu sögðu að um njósnabelg væri að ræða. Úr fjarlægð gætu Kínverjar haft takmarkaða stjórn á ferð hans en háloftastraumar réðu þó mestu. Hann kom upphaflega inn á bandarískt yfirráðasvæði 28. janúar í lofthelgi Alaska, skammt frá Aleutian eyjum. Norðurherstjórn Bandaríkjanna taldi í fyrstu að um væri að ræða venjulegar kínverskar þreifingar við ytri varnarmörk Bandaríkjanna.

Háttsettur bandarískur embættismaður sagði við The New York Times (NYT) að Kínverjar ættu flota loftbelgja til eftirlitsaðgerða og hefði til þeirra sést yfir löndum í fimm heimsálfum. Þeir eru venjulega í um 60.000 feta hæð og hefur af og til rekið inn yfir bandarískt yfirráðasvæði, til dæmis þrisvar í forsetatíð Donalds Trumps og einu sinni áður í tíð Joes Bidens.

Til Idaho í Bandaríkjunum kom belgurinn nú eftir flug yfir Kanada úr norðri. Þegar hann var miðvikudaginn 1. febrúar yfir Billing í Montana þótti mönnum í Bandaríkjaher ástæða til að grípa til ráðstafana þar sem í ríkinu er Malmstrom flugherstöðin, ein þriggja bandarískra flugherstöðva þar sem er að finna langdrægar eldflaugar með kjarnaodda. Var litið á þetta sem óskammfeilna tilraun til njósna. Töldu sumir að Kínverjar sýndu fífldirfsku með því að senda belginn á þessar slóðir.

Síðdegis fimmtudaginn 2. febrúar birti bandaríska NBC sjónvarpsstöðin frétt um að Bandaríkjaher fylgdist með því sem talinn væri kínverskur njósnabelgur yfir Montana. Skömmu síðar staðfesti varnarmálaráðuneytið fréttina á blaðamannafundi.

Síðar þennan sama dag ákvað Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að aflýsa fyrirhugaðri helgarheimsókn til Kína og var ákvörðunin kynnt opinberlega föstudaginn 3. febrúar.

Þá var belgurinn yfir Kansasríki á leið til austurstrandarinnar. Varnarmálaráðuneytið reiknaði út leiðina sem belgurinn myndi berast með loftstraumum og þegar hann kom á haf út voru örlög hans ráðin á meðan hann var enn innan bandarískrar lofthelgi.

 

Heimild: NYT

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …