Home / Fréttir / Kínverska risasímafélaginu Huawei haldið frá Bandaríkjamarkaði

Kínverska risasímafélaginu Huawei haldið frá Bandaríkjamarkaði

huawei

Fjarskipta- og tölvurisinn Huawei vill ná fótfestu á Bandaríkjamarkaði. Bandarískar leyniþjónustustofnanir vara hins vegar við að það gerist. Stofnanirnar hafa lagst gegn notkun á snjallsímum, tölvum og netbúnaði frá kínverska fyrirtækinu. Þetta kom fram á fundi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, leyniþjónustunnar CIA, þjóðaröryggisstofnunarinnar NSA og þriggja annarra stofnana á fundi með nefnd öldungadeildarþingmanna.

Forstjórarnir telja að mikilvæg gögn og upplýsingar kunni að komast í hendur stjórnvalda í Peking um þessi tæki. Þá kunni notkun tækjanna að auðvelda Kínverjum njósnir, skemmdarverk og upplýsingafalsanir. Af þessum sökum beri upplýsingafyrirtækjum í Bandaríkjunum að halda sig fjarri kínverskum framleiðendum.

Forstjóri hjá Huawei vísar þessum ásökunum á bug. Til marks um haldleysi þeirra bendir hann á milljarða fjárfestingu fyrirtækisins í Evrópu og mikla sölu þar. Um heim allan keppir kínverska fyrirtækið við bandarísk fyrirtæki eins og Cisco og Apple. Í Bretlandi vinna Kínverjar við tæknilausnir með breskum leyniþjónustustofnunum. Í Þýskalandi eiga þeir samstarf við Deutsche Telekom við þróun á gagnanetum.

Huawei hefur ekki látið að sér kveða á markaði í Bandaríkjunum en ætlun Kínverja var að láta til skarar skríða í ár. Andstaða við innreið fyrirtækisins vex þó jafnt og þétt. Í sjónvarpsstöðinni CNBC er haft eftir Christopher Wray, forstjóra FBI: „Við höfum verulegar áhyggjur af því að veita fyrirtæki eða deild þess starfsleyfi þegar um er að ræða fyrirtæki sem heyrir undir erlenda ríkisstjórn og virðir ekki sömu gildi og við gerum, ekki síst þegar um er að ræða mikilvægt hlutverk á sviði net- og fjarskiptamiðlunar.“

Upphaf Huawei má rekja til loka níunda áratugarins þegar það spratt af litlu símafyrirtæki. Ren Zhengfei, stofnandi fyrirtækisins, starfaði á sínum tíma sem njósnatæknimaður í þróunardeild kínverska alþýðuhersins. Hann stofnaði Huawei árið 1987. Þá kom hann upp símkerfi í Hong Kong. Færði síðan út kvíarnar til Evrópu og loks um heim allan. Nú veltir Huawei um 70 milljörðum evra á ári.

Huawei hefur nýega reynt að stofna til samstarfs við bandarísku símafélögin ATogT og Verizon. Á þennan hátt vildi fyrirtækið komast inn á ábatasaman markað í Norður-Ameríku með snjallsíma sína, netbúnað og tengda þjónustu. Bandarísku fyrirtækin höfnuðu samstarfi við Huawei nú í ársbyrjun. Í desember 2017 birtu stjórnmálamenn í Washington opið bréf með varnaðarorðum til viðkomandi ríkisstofnununar. Nú hafa leyniþjónusturnar tekið í sama streng.

Heimild: FAZ.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …