Xi Jinping, forseti Kína, hvetur til nánari samvinnu ríkja í Asíu og Evrópu jafnt í baráttunni gegn hryðjuverkum sem á sviði fjármála. Þetta kom fram í ræðu forsetans sunnudaginn 14. maí á ráðstefnu forystumanna 29 ríkja í Peking. Kínversk boðuðu til tveggja ráðstefnunnar til að kynna átak sitt sem miðar að því að auka ítök Kínverja í viðskiptum og alþjóðastjórnmálum. Stefnan er kennd við gömlu silkileiðina og var fyrst kynnt árið 2013.
Xi hefur boðað að kínverska stjórnin muni leggja fram 124 milljarða dollara til að fjármagna átakið. Markmiðið er að tengja Kína við Afríku, Asíu og Evrópu með neti hafna, brautarteina, vega og iðnaðarsvæða.
Meðal þeirra sem sátu ráðstefnuna voru Vladimir Pútín, forseti Rússlands, og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Xi lagði áherslu á að áformin fælu ekki aðeins í sér tilraun Kínverja til að auka áhrif sín á alþjóðavettvangi. Fyrir þeim vekti að leggja grunn að nýjum samstarfsaðferðum með gagnkvæma hagsmuni að leiðarljósi.
Xi hét einnig 8,7 milljarða dollara aðstoð við ríki og alþjóðastofnanir sem taka þátt í silkileiðar-áætluninni. Xi sagði að þátttaka væri öllum opin, einnig ríkjum í Evrópu og Afríku.
Pútín tók til máls við upphaf ráðstefnunnar og sagði að verndarstefna í alþjóðaviðskiptum væri ógn við heimsbúskapinn. Hann kvartaði einnig undan „ólöglegum þvingunum“.
Fáir vestrænir stjórnarleiðtogar tóku þátt í ráðstefnunni en Bretar, Frakkar og Þjóðverjar sendu forystumenn á sviði fjármála. Frá Bandaríkjunum kom háttsettur ráðgjafi Bandaríkjaforseta.
Forsetar Uzbekistans, Kazakstns, Kyrgyzans og Hvíta-Rússlands sátu ráðstefnuna auk forsætisráðherra Ítalíu, Pakistans og Serbíu. Þá sat aðalritari Sameinuðu þjóðanna einnig ráðstefnuna.
Fyrir ráðstefnuna í Peking skrifuðu fulltrúar Pakistans undir nýja viðskiptasamninga við Kína fyrir næstum 500 milljónir dollara. Laugardaginn 13. maí sögðu embættismenn að þetta væri viðbót við þá 57 milljarða dollara sem ákveðið hefur verið nota til að fjármagna sérstakt átaksverkefni Kínverja og Pakistana. Þar er um að ræða brautarteina, vegi og orkumannvirki.
Indverjar, hefðbundnir andstæðingar Pakistana, höfnuðu boði um að senda fulltrúa á ráðstefnuna í Peking. Með því láta þeir í ljós óánægju sína með að Kínverjar taki þátt í að fjármagna þessar nýju samgöngu- og viðskiptaleiðir um Pakistan sem fara einnig um Kashmir, þrætuepli milli Pakistana og Indverja.
Mannréttindavaktin (Human Rights Watch) lýsti laugardaginn 13. maí áhyggjum yfir hvernig kínversk stjórnvöld kæmu fram gagnvart fólki sem býr við nýju silkileiðina í vesturhluta Kína sem liggur að Mið-Asíu. Segja samtökin að stjórnvöld hefðu „aukið eftirlit og hert á þvingunum til að koma í fyrir hugsanleg mótmæli sem gætu truflað“ framkvæmd áætlunarinnar í Xinjiang-héraði þar sem Uighur-múslimar búa.