
Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa kyrrsett olíuskipið Lighthouse Winmore (11.253 lestir) sem skráð er í Hong Kong og sakað áhöfn þess um að flytja 600 lestir af hreinsuðu eldsneyti um borð í skip frá Norður-Kóreu í október 2017 í trássi við viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Skýrðu stjórnvöld S-Kóreu frá þessu föstudaginn 29. desember.
Daginn áður en frá þessu var skýrt hafði Donald Trump Bandaríkjaforseti sakað Kínverja um að selja olíu til Norður-Kóreu með því að flytja hana á milli skipa á hafi úti.
Kínversk stjórnvöld hafna nokkurri aðild að ólöglegum viðskiptum við Norður-Kóreumenn.
Lighthouse Winmore var formlega kyrrsett í Suður-Kóreu eftir að öryggisráð SÞ samþykkti 22. desember 2017 ályktun þar sem aðildarríkjum SÞ var gert skylt að rannsaka og kyrrsetja í höfnum sínum öll skip sem talið er að hafi verið notuð í ólögmæta þágu fyrir Norður-Kóreumenn.
Bannákvæði samþykktar öryggisráðsins mæla fyrir um að ríki megi ekki flytja út meira en hálfa milljón tunna af hreinsuðu eldsneyti, 89% lækkun frá því sem áður var leyft á ári, og fjórar milljónir tunna af hráolíu alls á ári til Norður-Kóreu. Ríki eiga að tilkynna um olíuflutninga sína til landsins svo að öryggisráðið geti haldið uppfærða skrá yfir heildarmagn olíunnar og séð hvort kvótinn hafi verið fylltur.
Fréttamenn Reuters hafa séð gervihnattargögn sem sýna óvenjulega háttsemi rússneskra olíuskipa. Sjá má skipin hitta skip frá Norður-Kóreu á hafi úti og vekja aðgerðir þeirra grunsemdir vegna þess að slökkt er á ratsjársvörum skipanna.
Talið er að undanfarna mánuði hafi rússnesk olíuskip að minnsta kosti þrisvar sinnum verið dælt eldsneyti úr rússneskum olíuskipum um borð í skip frá Norður-Kóreu.
Ekkert bendir til að rússnesk stjórnvöld eigi aðild að þessum viðskiptum segja heimildarmenn innan vestur-evrópskrar leyniþjónustu við Reuters. Rússneska utanríkisráðuneytið hafnar öllum ásökunum um að Rússar hafi brotið gegn samþykktum SÞ. Ráðuneytið fullyrðir við rússnesku fréttastofuna Ria Novosti að Rússar fari í einu öllu eftir því sem ákveðið hefur verið á vettvangi SÞ.
Skráður eigandi eins skipanna sem liggur undir grun vegna ásakana um olíusmygl til Norður-Kóreumanna segist með öllu saklaus. Reuters er ekki heimilt að skýra frá heimildarmanni sínum eða sýna það sem fréttamennirnir hafa séð.
Um er að ræða leynilegar upplýsingar og gervihnattarmyndir af skipi sem leggur úr höfn á Kyrrahafsströnd Rússlands. Nánari upplýsingar hafa ekki verið birtar.
Í september 2017 sagði Reuters frá að minnsta kosti átta olíuskipum frá Norður-Kóreu sem hafa siglt á þessu ári frá Rússlandi með eldsneyti um borð og flutt það til heimalands síns þótt tilefni ferða skipanna hafi verið sagt annað.
Föstudaginn 29. desember hvatti bandaríska utanríkisráðuneytið Rússa og aðrar aðildarþjóðir SÞ til að virða að fullu viðskiptabannið á Norður-Kóreu. Efla yrði samvinnu þjóða til að loka með öllu fyrir þá leið að olía sé flutt á milli skipa á hafi úti.