Home / Fréttir / Kínversk flotadeild undir forystu flugmóðurskips á Suður-Kínahafi

Kínversk flotadeild undir forystu flugmóðurskips á Suður-Kínahafi

Kínverska flugmóðurskipið Liaoning. Myndin frá 2012.
Kínverska flugmóðurskipið Liaoning. Myndin frá 2012.

Kínversk flotadeild undir forystu eina flugmóðurskips Kína, Liaoning, sigldi suður á bóginn eftir Suður-Kínahafi mánudaginn 26. desember eftir að hafa farið fyrir sunnan Tævan sagði í tilkynningu taívanska varnarmálaráðuneytisins og í frétt Reuters-fréttastofunnar 26. desember. Kínverjar segja um venjubundna æfingu að ræða.

Í frétt Reuters segir að ferð herskipanna veki meiri athygli en ella vegna þess að spenna hafi aukist varðandi réttarstöðu Tævans eftir að símtal Donalds Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna, við forseta Tævans olli uppnámi meðal kínverskra ráðamanna. Þeir líta á Tævan sem óaðskiljanlega hluta Kína og þess vegna geti ráðamenn á eyjunni ekki átt sjálfstæð samskipti við forystumenn annarra ríkja.

Flugmóðurskipið Liaoning var smíðað í Sovétríkjunum á sínum tíma. Skipið hefur áður verið sent til æfinga á Suður-Kínahafi. Þær eru taldar sýna að Kínverjar eigi mikið ólært til að öðlast hæfni Bandaríkjamanna við beitingu flugmóðurskipa.

Taívanska varnarmálaráðuneytið sagði að Liaoning hefði verið í fylgd fimm herskipa og hefðu þau siglt í suðvestur fyrir suðaustan Pratas-eyjur sem lúta stjórn Tævana. Skipin hefðu verið 90 sjómílur fyrir sunnan syðsta odda Tævans.

Bandaríska utanríkisráðuneytið sagði mánudaginn 26. desember að afstaða þess hefði ekki breyst frá því í júlí 2016 þegar sagt var að fylgst væri með endurnýjun á herafla Kínverja og þess væri vænst að ríki færu að alþjóðalögum við heræfingar.

Hua Chunying, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins í Peking, sagði að menn ættu ekki að oftúlka ferð flugmóðurskipsins enda færi það að lögum.

„Liaoning okkar ætti að njóta þess réttar sem markaður er í alþjóðalögum um frelsi til siglinga og yfirflugs og við vonum að allir aðilar virði þennan rétt Kína,“ sagði hún á daglegum blaðamannafundi.

Í The Global Times, áhrifamiklu málgagni Kínastjórnar, sagði að æfingin sýndi framfarirnar við beitingu flugmóðurskipsins og nú væri tímabært að senda það jafnvel á enn fjarlægari slóðir:

„Fyrr en síðar mun kíverski flotinn sigla um Austur-Kyrrahaf. Þegar kínversk flugmóðurskipadeild birtist einn góðan veðurdag undan strönd Bandaríkjanna munu margir brjóta heilann ákaft um siglingareglur,“ segir í leiðara blaðsins.

Kínverjum gremst að Bandaríkjamenn senda flota sinn til eftirlits við eyjar sem Kínverjar eigna sér í Suður-Kínahafi. Fyrir nokkru hertóku Kínverjar bandarískan neðansjávar dróna í Suður-Kínahafi en skiluðu honum.

Síðdegis sunnudaginn 25. janúar sögðu Japanir að þeir hefðu séð sex kínversk herskip, þar á meðal Liaoning, á siglingu milli Miyako og Okinawa út á Kyrrahaf. Aðal-talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar sagði mánudaginn 26. desember að ferð skipanna sýndi að hernaðarumsvif Kínverja ykjust og Japanir fylgdust náið með þróuninni.

Fyrr í mánuðinum efndi kínverski flugherinn til æfinga yfir Austur- og Suður-Kínahafi sem komu illa við Japani og Tævana. Kínverjar sögðu þetta hefðbundnar æfingar.

Kínverjar vinna að smíði flugmóðurskipa og telur bandaríska varnarmálaráðuneytið að þeim kunni að fjölga á næstu 15 árum.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …