
Sjálfseignarstofnunin Aurora Observatory hefur reist Norðurljósarannsóknarhús að Kárhóli í Reykjadal, Þingeyjarsveit fyrir kínverskt fé. Húsið er um 760 m² að stærð, staðsett skammt norðan og ofan við bæjarhúsin á Kárhóli. Byggingin er 3 hæðir, byggð úr steinsteypu og stáli.
Mánudaginn 10. október 2016 var lagður hornsteinn að byggingunni við hátíðlega athöfn. Í tilefni af því skrifaði Gunnar Már Gunnarsson á vefsíðuna Kjarnann 14. október 2016 og sagði meðal annars:
„Að öllum líkindum er þetta stærsta fjárfesting frá upphafi utan Reykjavíkur í uppbyggingu rannsóknaraðstöðu. Verkefnið var kynnt í Hörpu um helgina og í kjölfarið haldið norður á mánudag [10. október] og hornsteinn lagður að nýbyggingunni við hátíðlega athöfn. Rannsóknamiðstöðin er samstarfsverkefni sex íslenskra og tólf kínverskra vísindastofnana sem deila öllum þeim gögnum sem verða til á staðnum. Að auki verður aðstaðan sjálf opin vísindamönnum hvaðanæva að úr heiminum og þannig er stuðlað enn frekar að alþjóðlegu vísindasamstarfi.“
Á sínum tíma var stjórn sjálfseignarstofnunarinnar kynnt á þennan veg:
Í stjórn Aurora eru Ólína Arnkelsdóttir formaður, (fulltrúi Atvinnueflingar Þingeyarsveitar) Halldór Jóhannsson varaformaður ( fulltrúi Artic Portal ehf), Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson ritari (fulltrúi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar), Erlingur Teitsson meðstjórnandi (fulltrúi Kjarna ehf) og Reinhard Reynisson meðstjórnandi og prókúruhafi (fulltrúi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga).
Nú hefur athygli erlendra fjölmiðla beinst að norðurljósarannsóknarhúsinu.
The Washington Post birti miðvikudaginn 16. nóvember frétt frá AP-fréttastofunni um að hornsteinn hefði verið lagður að þessu rannsóknarsetri Kínverja „nálægt bænum Akureyri“ eins og það er orðað á vefsíðu Jyllands-Posten mánudaginn 21. nóvember þar sem AP-fréttin er endursögð. Þar segir:
„Rannsóknarsetrið verður aðsetur fyrir íslenska, kínverska og alþjóðlega vísindamenn sem rannsaka norðurljósin. Ýmsir á Íslandi hafa þó áhyggjur af þeirri stefnu sem birtist í tilvist rannsóknarsetursins. Þetta er nefnilega alls ekki í fyrsta sinn sem Kínverjar láta beint að sér kveða á Íslandi, þar sem íbúarnir eru um 330.000. Rannsóknarsetrið sem Kínverjar kosta og ætlunin er að taka í notkun á næsta ári er aðeins nýjasti þráðurinn í samstarfi landanna, Kínverjar lögðu Íslendingum t.d. lið í alvarlegu fjármálakreppunni fyrir nokkrum árum, Íslendingar aðstoðuðu Kínverja við að fá áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu – Kínverjar meta mjög mikils að vera þar. Þetta segir AP-fréttastofan eins og kemur fram í Washington Post. Heyra má áhyggjur af samvinnunni hjá Íslendingum: „Við erum smáþjóð og lítum þess vegna ekki á sjálfstæði okkar sem gefinn hlut. Saga okkar geymir mörg dæmi um baráttu við fjölmennari þjóðir um fiskveiðar og auðlindirnar í kringum okkur. Það hefur mótað skoðun þjóðarinnar,“ segir til dæmis hagfræðingur við háskóla í Reykjavík. Frá stofnuninni sem stendur að baki byggingunni á nýja rannsóknarsetrinu berast aðrir og jákvæðari tónar: „Það er betra að vera vinur allra þegar maður er í litlu landi en að eiga í útistöðum við einhvern.“