Home / Fréttir / Kínverjum fyrir bestu að snúa baki við Pútin

Kínverjum fyrir bestu að snúa baki við Pútin

Vladimir Pútin og Xi Jinping

Hu Wei starfar við hugveitu í Shanghai í Kína sem hefur áhrif á umræður um stefnu kínverska kommúnistaflokksins og stjórnvalda Kína. Ritgerð hans sem hér birtist í íslenskri þýðingu var skrifuð 5. mars 2022. Höfundurinn sendi hana að eigin frumkvæði á kínversku til kínversk/ensku vefsíðunnar US-China Perception Monitor. Þar var hún þýdd á ensku og birt 12. mars. Síðan hefur hún birst víða um heim.

Skömmu eftir að ritgerðin birtist á vefsíðunni US-China Perception Monitor var hún afmáð þaðan að kröfu kínverskra yfirvalda sem hóf ritskoðun á því sem vefsíðan birtir í Kína.

Afstaða kínverskra stjórnvalda til Vladimirs Pútins og hernaðar hans hefur ekki breyst á þann veg sem Hu Wei vill að gerist. Ritgerðin bendir ekki til að höfundur hafi endilega samúð með Úkraínumönnum, áhyggjur hans snúa að samkeppni Kínverja og Bandaríkjamanna. Kínverjar einangrist enn frekar á alþjóðavettvangi snúi þeir ekki baki við Pútin.

Hér hefst ritgerðin eftir Hu Wei:

Stríð Rússa og Úkraínumanna er alvarlegasti geópólitíski áreksturinn frá því í síðari heimsstyrjöldinni og kallar fram mun víðtækari hnattrænar afleiðingar en árásirnar 11. september. Á þessu viðkvæma stigi verða Kínverjar að greina nákvæmlega og meta stefnu stríðsins og hugsanleg áhrif þess á sviði alþjóðamála. Í viðleitni sinni til að skapa sér hæfilega hagstætt ytra umhverfi verða Kínverjar samhliða að sýna sveigjanleika og taka strategískar ákvarðanir sem falla að hagsmunum þeirra til langs tíma.

„Sérstök hernaðaraðgerð“ Rússa gegn Úkraínu hefur valdið miklum ágreiningi í Kína, stuðningsmenn hennar og andstæðingar skiptast í tvo ósættanlega andstæða hópa. Þessi grein er ekki skrifuð fyrir hönd neins hóps og í henni er – til að hún nýtist við mat og til fróðleiks á hæsta stigi Kína við töku ákvarðana – leitast við að setja fram hlutlæga greiningu á hugsanlegum afleiðingum stríðsins auk þess sem reifaðir eru viðeigandi kostir til mótvægis við þær.

I. Spá um framtíð stríðs Rússa og Úkraínumanna.

 1. Vladimir Pútin kann að mistakast að ná því markmiði sem hann vænti, það skapar Rússum vanda. Tilgangur árásar Pútins var að leysa að fullu Úkraínu-vandamálið og beina athygli frá vandamálum heima fyrir í Rússlandi með því að sigra Úkraínumenn í leifturstríði, setja nýja menn til valda og búa í haginn fyrir ríkisstjórn hlynnta Rússum. Leiftursóknin misheppnaðist hins vegar og Rússar hafa ekki burði til að heyja langvinnt stríð, standa undir miklum útgjöldum vegna þess. Með því að hefja kjarnorkustríð skipuðu Rússar sér gegn öllum heiminum og eru því sigurlíkur engar. Ástandið bæði á heimavelli og erlendis verður auk þess sífellt óhagstæðara. Jafnvel þótt Rússum tækist að hernema Kyív, höfuðborg Úkraínu, og skipa þar leppstjórn með ærnum kostnaði leiddi það ekki til lokasigurs. Á þessu stigi er best fyrir Pútin að hætta stríðinu á sæmilegan hátt með friðarviðræðum þar sem Úkraínumenn verða að gefa umtalsvert eftir. Að hinu ber þó jafnframt að huga að því sem ekki fæst í orrustu er einnig erfitt að ná fram við samningaborðið. Hvað sem öðru líður er þessi hernaðaraðgerð mistök sem ekki verður breytt.
 2. Átökin kunna enn að magnast og ekki er unnt að útiloka að Vestrið verði hugsanlega þátttakandi í stríðinu. Þótt stigmögnun stríðsins yrði kostnaðarsöm eru mjög miklar líkur á það verði Pútin ekki auðvelt að gefast upp sé litið til skapgerðar hans og valds. Stríð Rússa og Úkraínumanna kann að stigmagnast út fyrir umfang og svæði Úkraínu og kann hugsanlega jafnvel að ná til kjarnorkuárásar. Gerist það geta stjórnir Bandaríkjanna og Evrópuríkja ekki staðið til hliðar við átökin, það yrði því ýtt undir heimsstyrjöld eða jafnvel kjarnorkustyrjöld. Niðurstaðan yrði hörmuleg fyrir allt mannkyn og uppgjör milli Bandaríkjamanna og Rússa. Þessi loka árekstur yrði jafnvel verri fyrir Pútin vegna þess að hernaðarmáttur Rússa stenst engan samjöfnuð við mátt NATO.
 3. Jafnvel þótt Rússar megni að ná Úkraínu með því að taka örvæntingarfulla áhættu verður landið áfram pólitískt þrætuepli. Við svo búið mundu Rússar axla þunga byrði og örmagnast. Ekki skiptir máli hvort VolodymyrZelenskíj er lífs eða liðinn, líklegast er að Úkraínumenn setji á fót útlagastjórn til að mynda andstöðu til langs tíma gegn Rússum. Þá stæðu Rússar bæði frammi fyrir vestrænum refsiaðgerðum og uppreisn á landsvæði Úkraínu. Það verða dregnar mjög langar víglínur. Þjóðarbúskapurinn verður ósjálfbær og síðan í svaðinu. Þetta skeið varir aðeins í fáein ár.
 4. Pólitíska ástandið í Rússlandi kann að breytast eða leysast upp í höndum Vestursins. Eftir misheppnaða leiftursókn Pútins er lítil von um sigur Rússa og vestrænar refsiaðgerðir eru þyngri en nokkru sinni fyrr. Þegar áhrifin verða alvarleg á lífskjör fólks og öfl gegn stríði og gegn Pútin styrkjast er ekki unnt að útiloka pólitíska uppreisn í Rússlandi. Með efnahag Rússlands á barmi hruns yrði erfitt fyrir Pútin að hressa upp á hættulegt ástandið jafnvel þótt hann tapaði ekki í stríði Rússa og Úkraínumanna. Yrðu mótmæli almennra borgara, stjórnarbylting, eða eitthvað annað til þess að bola Pútin frá völdum eru enn minni líkur á árekstrum Rússa við Vestrið. Þeir mundu örugglega lúta vilja Vestursins eða Rússland yrði jafnvel sundurlimað enn frekar og stöðu Rússlands sem stórveldis lyki.

II. Greining á áhrifum stríðs Rússa og Úkraínumanna á svipmót alþjóðamála.

 1. Bandaríkjamenn tækju að nýju forystu meðal vestrænna þjóða og eining Vestursins efldist. Um þessar mundir er almennt talið að Úkraínustríðið sé til marks um algjört hrun bandarískra yfirráða, stríðið færir á hinn bóginn Frakka og Þjóðverja, sem vildu báðir fjarlægjast Bandaríkjamenn, að nýju inn í varnarkerfi NATO, eyðileggur draum Evrópuþjóða um að standa á eigin fótum í alþjóðamálum og efla sjálfsvarnir. Þjóðverjar stórauka útgjöld sín til hermála, Svisslendingar, Svíar og fleiri þjóðir segja skilið við hlutleysi. Eftir að NordStream 2 gasleiðslan er lögð til hliðar um ókomna framtíð er óhjákvæmilegt að Evrópuþjóðir eigi meira undir bandarísku jarðgasi. Þjóðir Bandaríkjanna og Evrópu verða að nánara samfélagi um sameiginlega framtíð og forysta Bandaríkjamanna meðal vestrænna þjóða styrkist.
 2. „Járntjaldið“ fellur að nýju, ekki aðeins frá Eystrasalti til Svartahafs, heldur markar það einnig lokauppgjör milli hópsins undir vestrænni forystu og keppinauta hans. Af hálfu Vestursins verður dregin lína milli lýðræðisríkja og forræðisríkja, þannig verður bilið gagnvart Rússum skilgreint sem árekstur milli lýðræðis og einræðis. Járntjaldið verður hvorki lengur dregið milli ríkja sósíalisma annars vegar og kapítalisma hins vegar né einskorðað við kalda stríðið. Þetta verður barátta upp á líf og dauða á milli þeirra sem eru með eða á móti vestrænu lýðræði. Einhugur Vestursins handan járntjaldsins hefur sogkraft gagnvart öðrum þjóðum: stefna Bandaríkjanna á Indó-Kyrrahafssvæðinu fær aukið gildi og aðrar þjóðir eins og Japanir halla sér jafnvel enn frekar að Bandaríkjunum svo að til verður fordæmalaus, víðtækur samstarfsvettvangur í þágu lýðræðis.
 3. Afl Vestursins eykst umtalsvert, NATO heldur áfram að stækka og bandarísk áhrif utan Vestursins aukast. Að loknu stríði Rússa og Úkraínumanna skiptir engu hvernig breytingar verða í rússneskum stjórnmálum, stríðið veikir mjög and-vestræn öfl í heiminum. Það sem gerðist eftir hrun Sovétríkjanna 1991 og upplausnina í austri kann að endurtaka sig: kenningar um „endalok hugmyndafræði“ kunna að birtast að nýju, það hægir á endurvakningu þriðju bylgju lýðræðisvæðingar og fleiri þriðja heims þjóðir halla sér í vestur. „Forystuhlutverk“ Vestursins styrkist bæði hernaðarlega og að því er varðar gildi og stofnanir, vestrænt vald, hart eða mjúkt, nær nýjum hæðum.
 4. Kína einangrast meira innan þess kerfis sem kemur. Með vísan til þess sem að ofan segir verða Kínverjar að sætta sig við meiri innilokun af hálfu Bandaríkjamanna og Vestursins nema þeir grípi til forvirkra aðgerða. Eftir fall Pútins standa Bandaríkjamenn ekki lengur frammi fyrir tveimur strategískum keppinautum heldur þurfa aðeins að læsa Kínverja inni í strategískri innilokun. Evrópumenn minnka sífellt meira tengslin við Kínverja; Japan verður fylkingarbrjóst í and-kínverskri baráttu; Suður-Kórea færist nær Bandaríkjunum; á Tævan taka menn undir með and-kínverska kórnum og annars staðar í heiminum verða þjóðir að velja sér forystu í anda hjarðhegðunar. Kínverjar verða ekki aðeins umkringdir hernaðarlega af Bandaríkjamönnum, NATO, QUAD og AUKUS heldur verður þeim einnig ögrað með vestrænum gildum og kerfum.

 

III. Strategískir kostir Kínverja.

 1. Kínverjar geta ekki verið bundnir við Pútin og verða eins fljótt og verða má að losa sig frá honum. Sé talið að stigmögnun átaka milli Rússa og Vestursins dragi athygli Bandaríkjamanna frá Kínverjum ættu Kínverjar að fagna með Pútin og jafnvel styðja hann, þetta á aðeins við ef Rússar tapa ekki. Að vera á sama báti og Pútin hefur áhrif á Kínverja tapi hann völdum. Takist Pútin ekki að tryggja sér sigur með stuðningi Kínverja, sem er frekar ólíklegt á þessari stundu, dugar vægi Kínverja ekki til að styðja Rússa. Lögmál alþjóðastjórnmála er að það séu „engir bandamenn að eilífu né ævarandi óvinir“ heldur séu „hagsmunir okkar eilífir og ævarandi“. Við núverandi aðstæður í alþjóðamálum geta Kínverjar aðeins látið við það sitja að gæta eigin hagsmuna sem best, velja skárri kostinn af tveimur vondum og losa sig við rússnesku byrðina eins fljótt og verða má. Um þessar mundir er talið að umþóttunartíminn til þess sé ein eða tvær vikur. Kínverjar verða að taka af skarið.
 2. Kínverjar ættu að forðast að leika á bæði borð á sama bátnum, hverfa frá hlutleysi og velja meginafstöðuna sem mótast meðal þjóða heims. Til þessa hafa Kínverjar reynt að móðga hvorugan aðila og haldið sig á miðjunni í alþjóðlegum yfirlýsingum og ákvörðunum, meðal annars setið hjá í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og við atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi SÞ. Þessi afstaða samræmist ekki þörfum Rússa og hún reitir Úkraínumenn, stuðningsmenn þeirra og þá sem hafa samúð með þeim til reiði, Kínverjar skipa sér því á rangan stað að mati mikils hluta þjóða heims. Í sumum tilvikum er skynsamlegt að sýna augljóst hlutleysi en það á ekki við í þessu stríði þar sem ekki er eftir neinu að sækjat fyrir Kínverja. Með vísan til þess að Kínverjar hafa ávallt boðað virðingu fyrir sjálfstæði þjóða og óskertum landsyfirráðum geta þeir nú aðeins komist hjá frekari einangrun með því að standa með meirihluta þjóða heims. Þessi afstaða stuðlar einnig að lausn Tævan-málsins.
 3. Kínverjar ættu að stefna að því að ná nú sem allra bestri strategískri stöðu sér til handa og láta ekki Vestrið einangra sig meira. Að segja skilið við Pútin og hafna hlutleysi er til þess fallið að styrkja alþjóðlega ímynd Kína og bæta samskiptin við Bandaríkjamenn og Vestrið. Þótt þetta sé erfitt og krefjist mikillar visku er það besta framtíðarlausnin. Ekki má binda of miklar vonir við að geópólitískar stimpingar í Evrópu vegna stríðsins í Úkraínu seinki því umtalsvert að Bandaríkjamenn beini strategískum áhuga sínum frá Evrópu á Indó-Kyrrahafssvæðið. Í Bandaríkjunum heyrast nú þegar raddir um að Evrópa sé mikilvæg en Kína sé þó enn mikilvægara og að forgangsmál Bandaríkjamanna sé að hindra að Kínverjar verði forystuveldi á Indó-Kyrrahafssvæðinu. Við aðstæður sem þessar ættu Kínverjar að leggja höfuðáherslu á að taka strategískar ákvarðanir í samræmi við hvert stefnir, breyta óvinveittri bandarískri afstöðu í garð Kína og komast hjá því að verða einangraðir. Mestu skiptir að lokum að útiloka að Bandaríkjamenn og Vestrið grípi til sameiginlegra refsiaðgerða gegn Kínverjum.
 4. Kínverjar eiga að koma í veg fyrir að heimsstyrjaldir eða kjarnorkustríð hefjist og leggja sitt af mörkum í þágu heimsfriðar á þann veg að ekkert geti komið í stað framlags þeirra. Þar sem Pútin hefur afdráttarlaust óskað eftir því að strategískur fælingarherafli Rússa [kjarnorkuheraflinn] sé settur í sérstaka viðbragðsstöðu til bardaga kann stríð Rússa og Úkraínumanna að taka á sig stjórnlausa mynd. Við réttlátan málstað skapast mikill stuðningur; við óréttlátan lítill. Hefji Rússar heimsstyrjöld eða jafnvel kjarnorkustríð taka þeir þá áhættu að öngþveiti verði í heiminum. Til að sýna hlutverk Kína sem ábyrgs stórveldis geta Kínverjar ekki einu sinni staðið með Pútin, þeir verða að gera sérstakar ráðstafanir til að hindra hugsanlega ævintýramennsku hans. Kínverjar eru þeir einu í heiminum sem geta þetta og þeir verða að nýta sér þessa einstöku aðstöðu sína til fulls. Brottför Pútins frá stuðningi Kínverja mun mjög líklega binda enda á stríðið eða að minnsta kosti koma í veg fyrir að hann þori að stigmagna það. Vegna þessa munu Kínverjar áreiðanlega ávinna sér víðtækt lof á alþjóðavettvangi fyrir að varðveita heimsfriðinn, það kann að hjálpa Kínverjum við að koma í veg fyrir eigin einangrun og einnig skapa þeim tækifæri til að bæta samskiptin við Bandaríkjamenn og Vestrið.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …