Home / Fréttir / Kínverjar vildu flugvöll í Lapplandi

Kínverjar vildu flugvöll í Lapplandi

Frá flugvellinum í Kemijärvi.
Frá flugvellinum í Kemijärvi.

Kemijärvi-flugvöllur í austurhluta Lapplands er vejulega mannlaus og þangað er ekkert áætlunarflug. Það eru einkum áhugamenn um flug sem nota 1.400 m langa brautina og stundum koma þangað sérfræðingar sem gera tilraunir með dróna.

Kínversk sendinefnd kom í heimsókn til sveitarstjórnarinnar í Kemijärvi í janúar 2018. Í forystu hennar voru Xia Zhang, forstjóri Heimsskautarannsóknastofnunar Kína, og Xu Shije, forstjóri kínversku stofnunarinnar um málefni norður- og suðurskautsins. Í kínversku sendinefndinni var einnig major Lie Ji, aðstoðarmaður kínverska hermálafulltrúans í sendiráði Kína í Finnlandi.

Þótt Kínverjarnir hafi heimsótt Lappland í janúar 2018 er fyrst núna skýrt frá erindi þeirra þangað.

Atte Rantanen, sveitarstjóri í Kemijärvi, sagði YLE, finnska ríkisútvarpinu, að tilgangur heimsóknar Kínverjanna hefði verið að eignast eða leigja til lags tíma Keimijärvi-flugvöll til að stunda loftslags- og umhverfisrannsóknaflug á Norður-Íshafi og alla leið að Norðurpólnum. Þeir ætluðu að halda úti stórri þotu frá flugvellinum og í henni yrðu alls kyns mælitæki.

Ekki hefði verið unnt fyrir Kínverja að nýta flugvöllinn í þessu skyni án þess að lengja flugbrautina úr 1.400 m í 3 km svo að þungar þotur gætu athafnað sig þar. Voru Kínverjar fúsir að reiða fram 40 milljónir evra til að lengja flugbrautina að sögn sveitarstjórans.

Það hefði verið flókið að lengja brautina því að hún er nálægt Rovajäervi skotæfingarsvæðinu, stærsta svæði í Evrópu þar sem unnt er að þjálfa og æfa stórskotalið. Rovajärvi er 1.110 ferkílómetrar að stærð.

AnuSallinen, ráðgjafi í finnska varnarmálaráðuneytinu, staðfesti við YLE að ráðuneytið hefði á árinu 2018 fengið vitneskju um kínverska áhugann á Kemijärvi-flugvelli. Hún sagði ólíklegt að flugvöllur svo nærri hernaðarlega mikilvægu skotæfingarsvæði yrði seldur til erlendrar ríkisstofnunar.

Þá benti Sallinen einnig að að finnsk lög, reist á tilskipun ESB sem takmarkar erlendar fjárfestingar, sem tóku gildi í október 2020 stæðu einnig í vegi fyrir viðskiptum í þá veru sem kynnt voru eftir heimsókn Kínverjanna til Kemijärvi.

Heimsskautarannsóknastofnun Kína heldur nú úti rannsóknastöð í Ny- Ålesund á Svalbarða sem lýtur stjórn Norðmanna. Kínverjar eiga nú tvo rannsókna-ísbrjóta sem þeir senda á heimsskautin. Þá er á döfinni að smíða kjarnorkuknúinn ísbrjót fyrir kínverska ríkið en ekki til rannsóknarstarfa.

 

Heimild: Barents Observer og YLE.

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …