Home / Fréttir / Kínverjar staðfesta nýjan áhuga á að fjárfesta í hánorðri Rússlands

Kínverjar staðfesta nýjan áhuga á að fjárfesta í hánorðri Rússlands

Héraðsstjórinn í Nenets í Arkangelsk umdæmi fagnar kínverskum samstarfsaðilum.

Sömu dagana og Xi Jinping, forseti Kína, heimsótti Moskvu var kínversk viðskiptasendinefnd í norðlæga rússneska bænum Narjan-Mar til að ræða fjárfestingar í norðurslóða framkvæmdum Rússa.

„Það er mjög táknrænt að vinnuheimsókn ykkar er sömu daga og opinber sendinefnd undir forystu þjóðhöfðingja Kínverska alþýðulýðveldisins er á fundum í Moskvu,“ sagði Juri Bezdidníj héraðsstjóri sjálfstjórnarsvæðisins Nenets í Arkangelsk umdæminu þegar hann bauð Kínverjana velkomna.

„Þessar viðræður staðfesta að Kínverjar eru strategískir samstarfsmenn okkar,“ áréttaði héraðsstjórinn.

Í kínversku sendinefndinni voru fulltrúar fyrirtækis sem sérhæfir sig í gerð grunnkerfa til olíu- og gasvinnslu. Verkfræðingar þess hafa komið að verkefnum austast í Rússlandi. Nú ætla þeir að snúa sér að norðurslóðaverkefnum.

Rússneski héraðsstjórinn segir að til umræðu sé „risaverkefni“ í héraðinu. Nefnt var gasver sem samvinnuverkefni með Gazprom og Lukoil, einnig íslausa höfnin í Indiga og járnbrautarlest frá henni til Sosnogorsk. Á þessum slóðum eru miklar olíulindir og Varandeij olíuhöfnin við Barentshaf.

Kínverska sendinefndin bauð ekki aðeins verkfræðilega ráðgjöf heldur einnig tækni- og tækjabúnað, flutninga á aðföngum og aðstoð við mannvirkjagerðina sjálfa og framkvæmdir.

Héraðsstjórinn fagnaði boði Kínverjanna og sagði heimamenn fúsa til samstarfs við þá á öllum stigum verksins, frá hönnun til byggingaframkvæmda.

Xi Jinping ræddi norðurslóðir (e. Arctic) við forystumenn Rússlands þegar hann var í Moskvu. Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, minnti á hve þjóðirnar hefðu unnið náið saman við verkefni á Jamal-skaga, en Jamal LNG-verkefnið og Arctic LNG2-verkefnið eru stórverkefni við vinnslu jarðgass og umbreytingu þess í fljótandi gas, LNG. Þá bauð Vladimir Pútin Rússlandsforseti Kínverjum aðild að þróun siglinga á Norðurleiðinni, það er siglingaleiðinni fyrir norðan Rússland frá Atlantshafi til Kyrrahafs.

Allt fellur þetta að því sem Xi Jinping boðaði í Moskvu, að gegn orku frá Rússum létu Kínverjar í té fé, þekkingu og mannafla.

 

Heimild: Barents Observer.

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …