
Meng Wanzhou, einn stjórnenda kínverska tæknirisafyrirtækisins Huawei, kom til Kína laugardaginn 25. september eftir næstum þriggja ára stofufangelsi í Kanada. Sama dag sneru tveir Kanadamenn, Michael Kovrig og Michael Spavor, heim frá Kína þar sem þeir sættu fangelsun og innilokun í um það bil 1.000 daga.
Tekið var á móti Meng Wanzhou (49 ára) með söng og blómum þegar hún steig út úr flugvél á vegum Kínastjórnar á Shenzhen-flugvelli. Þar fögnuðu nokkur hundruð starfsmenn Huawei henni með kínverska þjóðsöngnum. Meng Wanzhou er oft kölluð Huawei-prinsessan þar sem hún er dóttir stofnanda fyrirtækisins og hugsanlegur arftaki hans á forstjórastólnum.
Meng þakkaði kínverska kommúnistaflokknum fyrir að hún færi nú aftur frjáls ferða sinna. Í flugvélinni á leiðinni heim sagði hún á samfélagsmiðlinum WeChat: „Undir forystu Kommúnistaflokks Kína verður ættjörð mín öflugri og farsælli með hverjum deginum sem líður. Án þróttmikillar ættjarðar væri ég ekki frjáls á þessari stundu.“
Bandarísk stjórnvöld tilkynntu föstudaginn 24. september að þau mundu skjóta á frest og hugsanlega fella niður allar sakargiftir á hendur Meng. Kanadastjórn setti Meng í stofufangelsi að ósk bandarískra stjórnvalda sem töldu hana seka um fjársvik með því að beita HBSC-bankann blekkingum í þágu Írans.
Bandaríkjastjórn setti sem skilyrði fyrir að Meng færi frjáls að Kanadamennirnir tveir yrðu látnir lausir. Þeir lentu í Calgary í Kanada laugardaginn 25. september og tók Justin Trudeau forsætisráðherra á móti þeim.
Michael Kovrig, er fyrrverandi starfsmaður kanadíska utanríkisráðuneytisins, en Michael Spavor er kaupsýslumaður. Kínversk stjórnvöld sökuðu þá um njósnir.
Áður en þeir komu aftur til Kanada sagði Trudeau að þeir hefðu verið beittir „ótrúlegu harðræði“. Þeir hefðu á hinn bóginn sýnt „styrk, þolgæði og hugprýði“.
Bandaríkjastjórn fagnar að mönnunum var sleppt en kínversk stjórnvöld héldu því statt og stöðugt fram þar til á lokastund að ekki ætti að líta á þá sem gísla heldur sakamenn. Þykir nú sannað að ráðamenn í Kína hika ekki við að taka annarra þjóða menn í gíslingu telji þeir það þjóna hagsmunum sínum. Er það talið enn eitt dæmið um virðingarleysi þeirra fyrir mannréttindum og þess vegna sé varasamt að semja við þá á þann veg sem gert var vegna Meng. Þeir kunni að ganga á lagið.
Kínverska utanríkisráðuneytið segir að ákæruatriðin á hendur Meng séu „tilbúningur“ og Kanadastjórn hafi gengið erinda Bandaríkjamanna af þrælslund.
Meng Wanzhou var handtekin á flugvellinum í Vancouver í desember 2018 á leið til Mexíkó. Mánuði síðar birti bandaríska dómsmálaráðuneytið henni formlega ákæru vegna fjársvika.
Huawei hefur aðsetur í Shenzhen og er eitt stærsta síma- og fartæknifyrirtæki heims. Bandaríkjastjórn leggst harðlega gegn 5G-farkerfi Huawei og telur það hriplekt til njósnastofnana kínverskra stjórnvalda og kommúnistaflokksins.