Home / Fréttir / Kínverjar sjósetja fyrsta heimasmíðaða flugmóðurskip sitt

Kínverjar sjósetja fyrsta heimasmíðaða flugmóðurskip sitt

Flugmóðurskip Kínverja sjósett.
Flugmóðurskip Kínverja sjósett.

Kínverjar sjósettu fyrsta heimasmíðaða flugmóðurskip sitt miðvikidaginn 26. apríl.  Því kann að vera gefið nafnið  Shandong eftir héraðinu þar sem það var smíðað.   Búist er við að skipið verði formlega tekið í notkun árið 2018 eða 2019.

Fyrir eiga Kínverjar flugmóðurskipið Liaoning en byrjað var að nota það árið 2012.  Saga þess skips er löng og athyglisverð.  Skipið var upphaflega hluti af svokölluðum Kuznetsov flugmóðurbeitiskipa (aircraft cruisers) flokki en slík skip sameina eiginleika flugmóðurskipa og herskipa.  Fyrsta skipið í þeim flokki var sjósett árið 1985 og þess má geta að enn í dag er það eina flugmóðurskip Rússa.  Þegar Sovétríkin hrundu árið 1991 var smíði næsta skips hætt í skipasmíðastöð í Úkraínu.

Árið 1998 keypti kínverskur viðskiptajöfur skipsskrokkinn fyrir hönd aðila í kínverska hernum sem töldu tímabært að land þeirra eignaðist flugmóðurskip.  Þar sem úkraínsk stjórnvöld höfðu sett  sem skilyrði fyrir sölunni að skipið yrði ekki notað í hernaði tjáði kaupandinn þeim að hann hyggðist nota það til að koma á fót spilavíti undan strönd Macau.

Þegar skipið kom til Kína féllust yfirvöld á að taka við skipinu en að sögn kaupandans neituðu þau að greiða fyrir það.  En nú hafa Kínverjar sem sagt sett saman sitt eigið flugmóðurskip, sem byggt er á hönnum Liaoning, og þriðja flugmóðurskip þeirra er í smíðum.  Búist er við að það verði tekið í notkun um 2020.

Þegar þessi þrjú skip verða komin í gagnið mun kínverski herinn hafa náð sterkri stöðu við hina svokölluðu eyjakeðju (First Island Chain), en svo kallast eyjarnar sem liggja við meginland Austur-Asíu, og vera í góðri stöðu til að sækja inná vesturhluta Kyrrahafsins.  Kínverskir herfræðingar tala oft um  eyjakeðjurnar þrjár en sú þriðja liggur frá Aljútaeyjum, í gegnum Hawaii og til Nýja – Sjálands.

Flotastefna Kínverja flækir alþjóðlegar deilur í þessum heimshluta.  Um er að ræða ósætti um hafsvæði í Suður- og Austur- Kínahafi.   Auk Kínverja gera Brunei, Taívan, Malasía, Filipseyjar, Japan og Víetnam tilkall til hluta þessa svæðis og einnig tengjast Indónesar deilunum vegna þess að Kínverjar gera kröfu til hafsvæðis sem liggur að Natuna eyjum sem eru í eigu þeirra.  Svo eru ýmis ríki, m.a. Bandaríkin, sem vilja að Suður – Kínahaf verði áfram alþjóðlegt hafsvæði.

Eftir miklu er að slægjast á þessum hafsvæðum þar sem þar eru ekki aðeins gjöful fiskimið heldur er einnig talið að þar megi finna mikið af olíu og gasi og mjög mikið af vörum er flutt um Suður-Kínahaf.

Deilurnar eiga sér langa sögu en þær hafa harnað á síðustu árum ekki síst vegna þess að árið 2014 hófu Kínverjar að umbreyta rifi (Fiercy Cross rifinu) í Spartly-eyjaklasanum svo hægt væri að reisa þar mannvirki en Taívan, Filipseyjar og Víetnam hafa slegið eign sinni á eyjarnar fjórtán sem mynda hann.

Árið 2013 tók dómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna fyrir réttmæti kröfu Kínverja til Suður-Kínahafs í kjölfar kæru frá Filipseyingum.  Þremur árum síðar dæmdi dómstóllinn hinum síðarnefndu í vil en Kínverjar hafa hunsað dóminn.

Af þessu má ráða að ástandið á svæðinu er eldfimt og ekki bætir úr skák að sjóði uppúr  er hætt við því að bandaríski flotinn blandist inní átökin því varnarsamningar eru í gildi milli Bandaríkjamanna og nokkurra ríkja á svæðinu.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …