
Vaxandi áhugi og hagsmunagæsla Kínverja á norðurslóðum kann að leiða til hernaðarlegrar viðveru þeirra á svæðinu, þeir kynnu að senda þangað kafbáta sem hluta af fælingarátaki gegn kjarnorkuárás segir í skýrslu sem bandaríska varnarmálaráðuneytið birti fimmtudaginn 2. maí.
Á þennan veg hefst fréttaskýring sem Levon Sevunts hjá Radio Canada International (RCI) birti mánudaginn 6. maí.
Sevunts segir að á einni blaðsíðu í ársskýrslu sinni til Bandaríkjaþings fjalli ráðuneytið um ógn af Kínverjum á norðurslóðum. Þetta sé enn eitt merkið um að Bandaríkjaher hafi áhuga á að auka umsvif sín á norðurslóðum og næsta nágrenni þeirra.
Ráðuneytið segir að Kínverjar hafi aukið umsvif sín og áform á norðurskautssvæðinu eftir að þeir fengu áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu árið 2013.
Kínverjar hafa sýnt mikinn viðskiptalegan og vísindalegan áhuga á svæðinu. Kínversk stjórnvöld komu á fót heimskauta-rannsóknamiðstöð árið 2009. Þau hafa skipulagt nokkrar vísinda- og rannsóknarferðir inn í Norður-Íshafið.
Í skýrslu varnarmálaráðuneytisins segir að Kínverjar haldi úti rannsóknarstöðvum á Íslandi og í Noregi. Þá hafi ísbrjóturinn Snædrekinn (Xuelong) verið fyrsta opinber kínverska skipið til að sigla norðvesturleiðina, það er fyrir norðan Kanada, árið 2017. Þetta hafi verið áttunda ferð skipsins í Norður-Íshafi.
Kínverjar ljúka í ár við smíði nýs ísbrjóts sem nota má í Norður-Íshafi.
Í janúar 2018 birtu kínversk stjórnvöld hvítbók um norðurslóðir þar sem Kína er lýst sem „nágrannaríki norðurskautsins“ og Kínverjar hafi „mikilla hagsmuna að gæta varðandi málefni norðurslóða“.
Í stefnu Kínverja er vikið að hagsmunum þeirra varðandi aðgang að náttúruauðlindum, varðandi aðgang að siglingaleiðum í Norður-Íshafi og varðandi nauðsyn þess að minna á Kína sem „ábyrgt mikilvægt land“ í málefnum norðurslóða segir í mati bandaríska varnarmálaráðuneytisins.
Fréttamaður RCI segir að þessi afstaða hafi vakið norðurslóðaríki til umhugsunar um hver séu langtímamarkmið kínverskra stjórnvalda og hvort þau nái til hernaðarlegra mála.
Í skýrslu Pentagon er tekið fram að Danir hafi látið í ljós áhyggjur vegna áhuga Kínverja á Grænlandi sem feli meðal annars í sér tillögur um að koma á fót rannsóknarstöð og jarðstöð fyrir gervihnetti, endurnýja flugvelli og stunda námugröft.
„Borgaralegar rannsóknir geta stuðlað að hernaðarlegri viðveru Kínverja á Norður-Íshafi sem gæti kallað á kafbáta þeirra inn á svæðið í fælingarskyni gegn kjarnorkuárásum,“ segir í bandarísku skýrslunni.
Þar er einnig vakið máls á því að innan kínverska hersins hefur endurnýjun kafbátaflotans verið lyft hátt á forgangslistanum. Kínverjar halda úti fjórum kjarnorkuknúnum kafbátum búnum langdrægum eldflaugum, sex kjarnorkuknúnum árásarkafbátum og 50 kafbátum knúnum venjulegu vélarafli, segir í skýrslunni.
Fræðimenn segja að ekki séu neinar birtar heimildir fyrir því að Kínverjar hafi tileinkað sér tækni og færni til að halda úti kafbátum í Norður-Íshafi. Samtímis er bent á að innan lokaðs samfélags Kína sé tiltölulega auðvelt að leyna allri vitneskju um ferðir kafbáta norður á bóginn eða smíði þeirra til að þola aðstæður í Norður-Íshafi.
Kanadamenn og Bandaríkjamenn fylgjast náið með öllu sem varðar kafbátaumsvif Kínverja í Norður-Íshafi. Komi þeir þar við hlið Rússa sem hugsanlegir andstæðingar þjóðanna í Norður-Ameríku veldur það þáttaskilum í norðurvörnum þeirra sem sameinaðar eru innan NORAD-kerfisins. Það var upphaflega þróað til loftvarna en árið 2005 voru svör við ógnum neðansjávar einnig færð undir kerfið.
Innan NORAD yrði að móta aðferðir ekki aðeins til að finna kínverska kafbáta heldur einnig til að greina þá frá rússneskum kafbátum.