Home / Fréttir / Kínverjar sakaðir um að birta rangar tölur um útbreiðslu Covid-19

Kínverjar sakaðir um að birta rangar tölur um útbreiðslu Covid-19

52973312_403

Bandarískir embættismenn eru sagðir hafa sent Donald Trump forseta trúnaðarskýrslu þar sem fullyrt er að í Kína hafi menn leynt umfangi útbreiðslu kórónaveirunnar.

Á Bloomberg News var vitnað í þrjá ónafngreinda starfsmenn Bandaríkjastjórnar sem sögðu að af ásetningi hefðu opinberar kínverskar tölur um fjölda smitaðra og fjölda látinna verið ófullnægjandi. Tveir embættismannanna sögðu að Kínverjar hefðu falsað tölurnar.

Kínverska utanríkisráðuneytið mótmælti fréttunum um skýrsluna. Kínversk yfirvöld hefðu gætt „gagnsæi“ í frásögnum sínum af faraldrinum. Ráðamenn í Washington reyndu einfaldlega að „skella skuldinni á aðra“.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle (DW) sagði fimmtudaginn 2. apríl að hvað sem liði mótmælum kínverskra yfirvalda hefði ýmsa grunað vikum saman að Kínverjar segðu ekki alla söguna um upphaf veiruveikinnar.

Donald Trump neitaði miðvikudaginn 1. apríl að hann hefði lesið trúnaðarskýrslu um útbreiðslu Covid-19, kórónaveirunnar, í Kína. Hann sagði hins vegar á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu að fjöldatölur frá Kína „virtust heldur léttvægar og ég tala af vinsemd þegar ég segi það“.

DW vitnar í dr. Frank Ulrich Montgomery, formann World Medical Association, með aðsetur í Frakklandi sem sagði tölurnar frá Kína ótrúverðugar og „vitlausar“. Gaf hann til kynna að kínversk stjórnvöld birtu vísvitandi rangar tölur.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, segir að kínverskir embættismenn hafi ef til vill vitað um faraldurinn sem sagt var frá fyrst í Wuhan-borg í Kína í desember um mánuði áður en þeir skýrðu frá honum opinberlega.

Bandarískir þingmenn hvetja bandaríska utanríkisráðuneytið til að hefja rannsókn á „yfirhylmingu“ kínverskra stjórnvalda vegna faraldursins.

Í fyrri viku birtust frásagnir um að þúsundir af duftkerjum, mörgum sinnum fleiri en þeir sem sagt var að hefðu dáið vegna veirunnar, hefðu verið afhent útfararstofum í Hubei-héraði, heimahéraði Wuhan.

Á kínversku vefsíðunni Caixin birtust myndir af allt að 8.500 duftkerjum sem aðeins voru send til Wuhan. Langar raðir syrgjenda við útfararstofur eru einnig taldar til marks um að ekki hafi verið sögð öll sagan um banvæn áhrif faraldursins í Kína.

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …