Home / Fréttir / Kínverjar reisa flotastöð í Djibouti í Afríku – til marks um hnattræna flotastefnu þeirra

Kínverjar reisa flotastöð í Djibouti í Afríku – til marks um hnattræna flotastefnu þeirra

 

Þarna ætla Kínverjar að reisa fyrstu flotastöð sína erlendis.
Þarna ætla Kínverjar að reisa fyrstu flotastöð sína erlendis.

Kínverjar reisa nú fyrstu herstöð sína erlendis. Um er að ræða flotastöð í Djibouti á austurströnd Afríku, ekki langt frá stærstu herstöð Bandaríkjamanna í álfunni. Í The Wall Street Journal (WSJ) segir mánudaginn 22. ágúst að stefnt sé að verklokum við gerð flotastöðvarinnar á næsta ári. Hún sé liður í viðleitni Kínverja til að verða hnattrænt flotaveldi.

Um 4.000 menn eru í bandarísku stöðinni Camp Lemonnier í Djibouti, að meginhluta bandarískir hermenn en einnig liðsmenn bandamanna Bandaríkjanna, borgaralegir starfsmenn og verktakar. Þetta er helsta stöð Afríkuherstjórnar Bandaríkjanna.

WSJ segir að talið sé að Kínverjar ætli að hafa vopnabúr í stöð sinni, verkstæði fyrir skip og þyrlur og hugsanlega fámenna sveit kínverskra landgönguliða. Þar hefur nú verið reist þyrping lágra bygginga og komið fyrir gámum úr skipum og eru sumir þeirra merktir með kínverska fánanum. Er litið á þetta sem sýnilega sönnun þess að Kínverjar vilji ná hernaðarlegri fótfestu vestan Indlandshafs og þar fyrir handan.

Kínverskir embættismenn neita að um verði að ræða stöð á borð við stórar flotastöðvar Bandaríkjamanna og kalla aðstöðuna í Djibouti „stuðnings-höfn“. Þeir leyna hins vegar ekki áhuga á að semja um svipaða fótfestu víðar erlendis þar sem Kíverjar hafi hagsmuna að gæta. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur spáð því að Kínverjar komi á fót stöðvum víðar á fjarlægum á komandi áratug.

Kínverjar hafa fest töluvert mikið fé í Djibouti, einkum í olíu- og gasvinnslu, frá árinu 2010. Þá hafa þeir lagt flugher Djibouti til orrustuvélar.

Ali Youssouf, utanríkisráðherra í Djibouti, segir að allt að 2.000 menn geti dvalist í kínversku stöðinni en þeir verði líklega 300. Vegna stöðvarinnar muni Kínverjar greiða ríkissjóði Djibouti 20 milljónir dollara árlega í 10 ár með rétti til 10 ára framlengingar.

Háttsettur vestrænn embættismaður sagði WSJ að Bandaríkjamenn yrðu hugsanlega að flytja viðkvæman búnað frá svæðinu til að forða honum frá kínverskum njósnakerfum. Kínverskir tölvuþrjótar hafa brotist inn í tölvukerfi bandarískra stjórnvalda. Þeim tókst til dæmis í fyrra að brjóta sér leið inn í skrár yfir starfsmenn Bandaríkjastjórnar og ná aðgangi að persónulegum upplýsingum um 22 milljónir manna.

Litið er á stöðina í Djibouti í samhengi við sókn Kínverja til yfirráða á Suður-Kínahafi þar sem þeir hafa búið til eyjar til að styrkja stöðu sína og haft að engu niðurstöðu alþjóðlegs dómstóls sem sagði í júlí að Kínverjar ættu engan lagalegan eða sögulegan rétt til yfirráða á þessu svæði.

Kínverjar hafa einnig efnt til flotaæfinga á Suður-Kínahafi og reist herstöðvar á umdeildum eyjum þrátt fyrir mótmæli Bandaríkjamanna og annarra þjóða.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …