Home / Fréttir / Kínverjar reiðir vegna ályktunar NATO-toppfundar

Kínverjar reiðir vegna ályktunar NATO-toppfundar

Í yfirlýsingu ríkisoddvitafundar NATO mánudaginn 14. júní í Brussel er farið óblíðum orðum um Kínastjórn. Þar segir að afstaða Kínverja vegi að öryggi NATO-ríkjanna og „torskilin“ hervæðing þeirra er gagnrýnd. Bent er á að yfirlýsingar Kínastjórnar um markmið hennar og sjálfbirgingsleg framganga feli í sér kerfisbundna ögrun við skipan alþjóðamála sem reist sé á umsömdum reglum og við svæði sem snerta öryggi NATO-ríkjanna.

Kínversk stjórnvöld saka NATO um að gera of mikið úr „ógnarkenningunni um Kína“ í yfirlýsingu toppfundarins og sögðu þriðjudaginn 15. júní að fyrir NATO vekti að „ýta undir árekstra“.

Kínverska fastanefndin gagnvart Evrópusambandinu í Brussel hvatti til þess að NATO liti til þróunar í Kína „af skynsemi, hætti að gera of mikið úr einstökum útgáfum af „ógnarkenningunni um Kína“ og noti ekki lögmæta hagsmuni Kínverja og lögverndaðan rétt sem afsökun fyrir að afvegaleiða pólitíska hópa með tylliástæðum til árekstra“.

Þá sagði fastanefndin að ásakanir NATO væru „rógur um friðsamlega þróun Kína, rangt mat á stöðu alþjóðamála og eigin hlutverki þess og framhald á kalda stríðs hugsunarhætti ríkjahópsins og sýndi stjórnmálasálfræði hans í verki. Við munum ekki beita neinn „kerfisbundinni ögrun“ en vilji einhver beita okkur „kerfisbundinni ögrun“ látum við það ekki óátalið“.

Á blaðamannafundi að loknum toppfundinum vék Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að fjárfestingu Kínverja í mannvirkjum og grunnvirkjum á Vesturlöndum. Er talið að hann hafi þar m.a. vísað til 5G-farkerfanna frá kínverska tækni- og fjarskiptarisanum Huawei.

„Kínverjar nálgast okkur. Við sjáum þá í netheimum, við sjáum Kínverja í Afríku en við sjáum einnig að Kínverjar fjárfesta af þunga í lykil-innviðum okkar sjálfra,“ sagði Stoltenberg. „Við verðum að svara þessu saman sem bandalag.“

Áður hafði Stoltenberg sagt: „Við erum ekki við upphaf nýs kalda stríðs og Kína er ekki andstæðingur okkar, ekki óvinur okkar.“

Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti þá sem sátu toppfund NATO með honum til að rísa gegn forræðissókn Kínverja.

Í lok liðinnar viku tók forsetinn þátt í leiðtogafundi G7-ríkjanna á Cornwall í Bretlandi. Þar ályktuðu menn einnig á neikvæðan hátt um Kína og gagnrýndu mannréttindabrot Kínastjórnar, hvöttu til aukinnar sjálfstjórnar í Hong Kong og til að grafist yrði fyrir um upphaf kórónuveirufaraldursins í Kína.

Þá kynntu G7-leiðtogarnir sameiginlega fjárfestingaráætlun sem Biden sagði að yrði „sanngjarnari“ en kínverska áætlunin sem kennd er við belti og braut.

Heimild: dw

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …