Home / Fréttir / Kínverjar opna fyrstu herflotastöðina fjarri heimalandinu

Kínverjar opna fyrstu herflotastöðina fjarri heimalandinu

Kínverkst herskip leggst að bryggju í Djibouti.
Kínverkst herskip leggst að bryggju í Djibouti.

Kínverjar opnuðu fyrstu herstöð sína erlendis þriðjudaginn 1. ágúst við hátíðlega athöfn í Djibouti, landi á austurströnd Afríku á skaga sem teygir sig út á milli Rauðahafs og Adenflóa. Fögnuðu kínversk stjórnvöld 90 ára afmæli alþýðuhers Kína á þennan hátt.

Lega Djibouti við norðvestur enda Indlandshafs og herstöð þar vekur ótta meðal Indverja um að nú hafi Kínverjar eignast nýja „perlu“ í samstarfsfestinni um hernaðarmálefni sem þeir hafa myndað umhverfis Indland með tengslum við Bangladesh, Myanmar (Búrma) og Sri Lanka.

Kínverjar hófu smíði herbæki- og birgðastöðvar Djibouti í fyrra. Stöðin verður að sögn kínverskra yfirvalda notuð sem birgðastöð fyrir kínversk herskip sem sinna friðargæslu og mannúðarverkefnum, einkum undan ströndum Jemens og Sómalíu.

Kínversk stjórnvöld kalla stöðina birgðastöð en aðrir líta á hana sem fyrstu flotastöð þeirra utan Kína.

Í kínverska ríkisútvarpinu var sagt að meira en 300 manns hefðu tekið þátt í athöfninni þar á meðal næstráðandi innan kínverska herflotans, Tian Zhong, og varnarmálaráðherrann í Djibouti.

Reuters-fréttastofan segir að Xi Jinping, forseti Kína, vinni að víðtækri endurnýjun á her Kína. Í henni felist meðal annars að beita megi kínversku hervaldi langt frá Kína.

Skip sem sigla til og frá Súez-skurðinum verða að leggja leið sína hjá Djibouti. Landið er um 23.000 ferkílómetrar og íbúar tæplega ein milljón, múslimar sem tala arabísku og frönsku. Það á landamæri að Eþíópíu, Eritreu og Sómalíu. Þar eru einnig flotastöðvar Bandaríkjamanna, Frakka og Japana.

Sérfræðingar eru ekki á einu máli hver sé raunverulegur tilgangur Kínastjórnar með smíði flotastöðvar, hvort líta eigi á hana sem hluta af áætluninni um belti og braut (nýju silkileiðinni) sem Xi Jinping hefur kynnt, hvort um hreina hernaðarútþenslu sé að ræða eða hlutverk hennar sé það sem kynnt hefur verið af kínverska varnarmálaráðuneytinu: að styðja við „aðgerðir flotans til að veita aðstoð við siglingar við Afríku og suðvestur Asíu, friðargæslu SÞ … mannúðarstörf“.

Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua segir að stöðin í Djibouti snerti ekki vígbúnaðarkapphlaup eða hernaðarlega útþenslu á neinn hátt. Kínversk yfirvöld hafi engin áform um að breyta birgðastöð í herstöð.

Bandaríski herinn heldur úti einni fastri stöð í Afríku, Camp Lemonnier, í Djibouti.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …