Home / Fréttir / Kínverjar ögra Filippseyingum með 220 varaliðsskipum flotans

Kínverjar ögra Filippseyingum með 220 varaliðsskipum flotans

Hluti kínverska flotans innan lögsögu Filippseyja.
Hluti kínverska flotans innan lögsögu Filippseyja.

Stjórn Filippseyja sakaði kínverska diplómata um lygar mánudaginn 5. apríl eftir að þeir fullyrtu að hundruð skipa sem virtu lögsögu Filippseyja að engu hefðu leitað í var fyrir óveðri.

Í mars 2021 mótmælti utanríkisráðuneyti Filippseyja þegar 220 kínversk svonefnd fiskiskip sigldu að Julian Felipe-rifinu í Spratly-eyjaklasanum á Suður-Kínahafi. Rifið er í um 175 sjómílna fjarlægð vestur af strönd Palawan-héraðs á Filippseyjum og innan efnahagslögsögu eyjanna.

Delfin Lorenzana, varnarmálaráðherra Filippseyja, gaf laugardaginn 3. apríl stjórnendum skipanna fyrirmæli um að hverfa á brott og hvatti Kínverja til „að yfirgefa fullvalda lögsögu okkar og fara að alþjóðalögum“.

Kínverskir sendiráðsmenn í Manila, höfuðborg Filippseyja, svöruðu ráðherranum og sögðu að stjórnvöld Filippseyja ættu „sleppa öllum ófagmannlegum ummælum“ um ferðir skipanna.

Við þessu brást utanríkisráðuneyti Filippseyja með ásökunum í garð Kínverja um „ósvífnar rangfærslur“ og hafnaði því að veður hefði verið slæmt við eyjarnar.

„Julian Felipe-rifið er hluti af Kalayaan-eyjum og er innan efnahagslögsögu Filippseyja,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins 5. apríl. Þá var því hafnað að líta bæri á þetta svæði augum Kínverja sem segja um „hefðbundið veiðisvæði“ skipa sinna að ræða.

Þrátt fyrir að alþjóðadómstóll hafi árið 2016 hafnað réttmæti kröfu Kínverja um yfirráð þeirra á Suður-Kínahafi fara stjórnvöld í Peking sínu fram á svæðinu og hafa reist herstöðvar á umdeildum Spratly-eyjaklasanum.

Bandaríkjastjórn hafnar yfirráðarétti Kínverja og sendir oft herskip inn á Suður-Kínahaf til að minna á frelsi til siglinga á umdeildum svæðum.

Nú segir utanríkisráðuneyti Filippseyja að formleg mótmæli verði send kínverskum stjórnvöldum hvern dag sem þau neita að kalla kínversku skipin á brott.

„Kínverskir sendiráðsstarfsmenn eru minntir á að þeir eru gestir ríkisstjórnar Filippseyja og gestir verða ávallt að virða alþjóðlegar siðareglur og sýna embættismönnum stjórnvalda Filippseyja virðingu,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Bandaríkjastjórn styður Filippseyinga í þessari deilu. Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, Ned Price, sagði á Twitter 24. mars: „Bandaríkjamenn standa með bandamanni okkar, Filippseyingum, þegar þeir lýsa áhyggjum af flota [kínverskra] varaliðsskipa skammt frá Julian Felipe-rifi. Við hvetjum ráðamenn í Peking til að hætta að beita varaliði flotans til að hræða aðra eða ógna þeim, það grefur undan friði og öryggi.“

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …