Home / Fréttir / Kínverjar kynna belti og braut – margt er óljóst

Kínverjar kynna belti og braut – margt er óljóst

Kortið sýnir leiðir undir merkjum belta og brauta.
Kortið sýnir leiðir undir merkjum belta og brauta.

 

 

Höfundur Kristinn Valdimarsson

Gera má ráð fyrir því að það hafi ekki farið framhjá neinum sem les vefsugerc33.sg-host.com að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom til Íslands miðvikudaginn 4. september. Heimsóknin var stutt en hann sat ekki aðgerðalaus. Þannig hitti hann helstu ráðamenn þjóðarinnar og ræddi við þá. Meðal umræðuefna var áhugi Kínverja á norðurslóðum. Hann nær til Íslands og eru Kínverjar m.a. ekki fráhverfir því að fjárfesta í innviðum hér á landi. Þetta er viðkvæmt mál líkt og glögglega kom í ljós þegar Pence þakkaði Íslendingum fyrir að hafa hafnað málaleitan Kínverja á þessu sviði. Fullyrðing hans var röng og leiðréttu ráðherrar hann. Kínverski sendiherrann fór auk þess hörðum orðum um ummæli varaforsetans.

 

Áform Kínverja

Fjárfestingahugmyndir Kínverja hér á landi tengjast kínversku verkefni sem þeir kenna við belti og braut (e. Belt and Road Initiative). Um er að ræða afar umfangsmikið innviðaverkefni sem hleypt var af stokkunum árið 2013 af leiðtoga Kína Xi Jinping. Meginmarkmið þess er að tengja betur saman Evrópu, Asíu og Afríku. Kína er efnahagslegt stórveldi og vilja þarlend stjórnvöld því láta meira til sín taka á alþjóðavettvangi. Mörgum er til dæmis fagnaðarefni að þau vilji stuðla að bættum samgöngum milli ríkja og heimsálfa.

Það á hins vegar alls ekki við um alla. Breska vikuritið The Economist hefur fjallað um verkefnið og áhyggjur sem það veldur. Þeir sem líst illa á verkefnið segja að það snúist fyrst og fremst um að auka áhrif Kínverja í Evrasíu. Þannig geti þeir komið hugmyndafræði kommúnistastjórnarinnar í Peking á framfæri og með því grafið undan frjálslyndum gildum, stefnu Vesturlanda. Þegar kínversk stjórnvöld veiti ríkjum lán vegna verkefnisins sé ekki krafist umbóta að hætti Vesturlanda. Lánskjör Kínverja þykja einnig oft óhagstæð. Gagnrýni á lánin hefur leitt til þess að nokkur ríki hafa ákveðið að endurskoða hugmyndir um samstarfsverkefni með Kínverjum.

The Economist bendir líka á að mikil leynd hvíli yfir ýmsum þáttum verkefnisins og það sé ekki til þess fallið að draga úr áhyggjum efasemdarmanna. Ekki bætir úr skák að kynning Kínverja á belti og braut þykir ruglingsleg. Besta dæmið um það er sjálft heitið á verkefninu. Flestir tengja brautir (e. roads) við akvegi en í verkefni Kínverja er átt við siglingaleiðir. Það er beltahlutinn sem snýr að samgöngum að landi.

 

Skýrsla Evrópusambandsins

Annað sem ruglar fólk í ríminu er að belti og braut er ekki eitt risastórt innviðaverkefni. Um er ræða nokkrar smærri silkileiðir, það er ævafornar verslunarleiðar á milli Kína og Evrópu (nafnið kemur frá þýska kortagerðarmanninum Ferdinand von Richthofen sem var frændi Rauða barónsins). Þannig er til silkileið út á Kyrrahafið (e. Pacific Silk Road), silkileið um ís (e. Silk Road on Ice) sem er samstarfsverkefni Rússa og Kínverja og silkileið um netheima (e. Digital Silk Road).

Eitt verkefnið kallast heimskautasilkileiðin (e. Polar Silk Road). Það var kynnt til sögunnar í janúar 2018 og líkt og nafnið ber með sér snýst verkefnið um að tengja lönd á norðurslóðum við belti og braut. Evrópusambandið (ESB) hefur hagsmuna að gæta á þessu svæði og því eru ráðamenn í höfuðborgum aðildarríkjanna auk embættismanna í Brussel að skoða kosti og galla heimskautasilkileiðarinnar. Til að auðvelda þá rannsóknarvinnu gaf öryggismálastofnun ESB (e. The European Union Institute of Security Studies), sem er rannsóknarstofnun á vegum ESB frá árinu 2002, út skýrslu um verkefnið í desember árið 2018. Kallast hún Eftir brautinni – Kína á norðurslóðum (e. Along the Road – China in the Arctic) og er eftir Cécile Pelaudeix.

Í skýrslunni rekur Cécile Pelaudeix hvernig Kínverjar hafa aukið áhrif sín á norðurslóðum með þrennum hætti: Í fyrsta lagi fjárfesta þeir mikið á svæðinu. Kínverjar taka einnig þátt í ýmsum vísindaverkefnum í þessum heimshluta og svo vilja þeir eiga aðild að ákvarðanatöku um framtíð svæðisins.

Skýrsluhöfundur telur að ESB stafi hætta af uppbyggingu Kínverja á norðurslóðum. Í fyrsta lagi kunni fjárfestingar þeirra á svæðinu að grafa undan einingu ESB-ríkjanna, þeir sem taki tilboðum Kínverja kunni í framtíðinni að styðja þá í ýmsum málum frekar en ESB. Varnarkerfi ESB kunni einnig að vera í hættu vegna umsvifa Kínverja á norðurslóðum. Í framtíðinni kunni þeir að nota mannvirki þar til þess að njósna um varnarviðbúnað Evrópuríkja eða sem herstöðvar. Þriðja ógnin af belti og braut á norðurslóðum snúi að reglum sem ESB hefur sett á sviði náttúruverndar og félagsmála. Kínverjar kunni að vega að þessum reglum.

 

Ísland og heimskautasilkileiðin

Vegna fjarlægðar Íslands frá Kína telja án efa margir að Íslendingar hafi litlu hlutverki að gegna í innviðaverkefni Kínverja. Svo er hins vegar alls ekki að sögn höfundar skýrslunnar Eftir beltinu – Kína á norðurslóðum. Sagt er að Ísland sé hugsanlega leið Kínverja inn í Evrópu (e. gateway to Europe). Nefnt er að Íslendingar hafi skrifað undir fríverslunarsamning við Kína árið 2013 fyrst Evrópuríkja og að stjórnvöld hafi mikinn áhuga á að Kínverjar fjárfesti hér á landi. Einnig er minnst á samstarfssamning milli Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís) og Heimskautamiðstöðvar Kínverja (e. Polar Research Institute of China) sem skrifað var undir árið 2012. Hann leiddi til þess að Íslendingar studdu áheyrnaraðild Kína að Norðurskautsráðinu (e. Arctic Council). Annar ávöxtur samstarfsins er Norðurslóðarannsóknarstöðin (e. China – Iceland Arctic Science Observatory) sem opnuð var á Kárhóli í Suður – Þingeyjarsýslu árið 2018. Ári áður en stöðin var opnuð fóru Kínverjar fram á að hún sæi um fleiri rannsóknarverkefni en upphaflega var ætlað og samþykktu Íslendingar það. Í grein Cécile Pelaudeix kemur fram að grunsemdir séu uppi um að Kínverjar geti notað rannsóknartækin í stöðinni til þess að njósna í lofthelgi ríkja Atlantshafsbandalagsins. Heimskautamiðstöð Kínverja er líka aðili að ráðstefnuröðinni Arctic Circle, Hringborð norðursins, sem Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands, stjórnar. Að lokum er nefnt að kínverskt ríkisolíufélag hafi skrifað undir samstarfssamning um olíuvinnslu undan ströndum Íslands. Upp úr þeirri samvinnu slitnaði þó þegar í ljós kom að liklega væri ekki nægilega olíu þar að finna.

Hér hefur verið reynt að varpa ljósi á það hvers vegna hugmyndir Kínverja um innviðaverkefni hér á landi er viðkvæmt mál. Mikilvægt er fyrir Íslendinga að halda góðum samskiptum við Kínverja og varast ber hræðsluáróður gagnvart hugmyndum þeirra. Margt er enn á huldu varðandi belti og braut. Verð stjórnvöld jafnframt að átta sig á að verkefnið er umdeilt og aðkoma Íslendinga að því hefur áhrif út fyrir landsteinanna. Stjórnvöld þurfa því að fara að öllu með gát. Besta leiðin til að tryggja að það verði gert er að reyna að afla sér sem bestra upplýsinga um hugmyndir Kínverja sem síðan yrðu ræddar með yfirveguðum hætti af stjórnvöldum hér á landi og í samtölum við helstu bandalagsþjóðir okkar.

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …