Í nýjasta hefti tímaritsins The Economist er greinasafn um kínverskt fjárfestingaverkefni sem talsvert hefur verið til umfjöllunar á undanförnum árum. Um er að ræða verkefni sem á íslensku hefur verið kallað Belti og braut en kallast á ensku Belt and road. Í fyrstu greininni í greinasafninu er útskýrt hvað felist í þessu innviðaverkefni kínverska kommúnistaflokksins sem fer með stjórn landsins. Verkefnið kemur beint frá valdamiðstöð flokksins en núverandi forseti landsins XI Jinping er á bak við það. Kynnti hann undirstöður þess fyrir heiminum í tveimur ræðum árið 2013. Sú fyrri var í Nursultan, höfuðborg Kasakstan. Þar lagði hann línurnar fyrir þann hluta silkileiðarinnar, en Belti og braut er stundum kallað því nafni, sem á að tengja Kína við aðra hluta Asíu og Evrópu með umfangsmiklu vegakerfi. Stuttu síðar kynnti Xi til sögunnar hinn meginhluta verkefnisins sem snýst um bættar samgöngur á sjó. Sagði Xi í ræðu í Jakarta, höfuðborg Indónesíu að Kína ætlaði að tengja saman hafnarborgir við Suður – Kínahaf, Indlandshaf og Miðjarðarhaf. Síðar voru fleiri áform tengd Belti og braut. Þannig eru nú hugmyndir um heimskautasilkileið, stafræna silkileið og jafnvel silkileið í geimnum sem snýst um geimferðamiðstöðvar og gervihnetti.
Sagan að baki silkileiðinni
Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að sýn Kínverja er umfangsmikil. Ýmsar ástæður liggja að baki verkefninu. Efnahagsástæður skipta miklu máli. Þannig er verkefnið að vissu leyti áframhald á þeirri stefnu stjórnvalda að hafa meiri áhrif á efnahagslíf heimsins. Ekki skiptir síður máli að þegar áhugi útlendinga á kínverskum vörum minnkaði til muna í efnahagsþrengingunum 2007 – 2009 áttuðu kínversk stjórnvöld sig á nauðsyn þess að styrkja markaði fyrir kínverskar vörur í útlöndum. Einnig þarf að hafa í huga að lögmæti Kínastjórnar innanlands veltur að miklu leyti á því að skapa landsmönnum vinnu og halda fjárfestingum gangandi. Eigi markmiðin að nást dugir ekki fyrir stjórnvöld að stuðla að hagvexti innanlands heldur verða þau einnig að sjá til þess að kínversk fyrirtæki fái erlend verkefni. Kínverjar sjá líka að með því að stuðla að innviðaverkefni á alþjóðavísu sem auðveldar samgöngur munu vinsældir þeirra aukast á heimsvísu. Þannig styrkja þeir stöðu sína og geta jafnvel velt Bandaríkjunum úr sessi sem ráðandi risaveldi.
Hagnaður eða hætta?
Það er þetta síðasta markmið sem gerir það að verkum að greinahöfundur The Economist nefnir að taka þurfi áætlunum Kínverja með varúð. Ekki er hann einn um þá skoðun. Þannig eru bandarísk stjórnvöld farin að hafa verulegar áhyggjur af áætlunum Kínverja. Eitt svar þeirra er að efla tengslin við ýmis ríki sem þau hafa vanrækt að undanförnu og þar með gefið öðrum, m.a. Kínverjum, tækifæri til að koma ár sinni fyrir vel borð þar.
Þrátt fyrir að ekki sé allt sem sýnist varðandi Belti og braut tekur blaðamaður The Economist fram að ekki sé skynsamlegt að draga upp of dökka mynd af áætluninni. Ýmis verkefni í henni séu til hagsbóta fyrir marga. Svo mega úrtölumenn ekki gleyma því að verkefnið er of umfangsmikið og óljóst til þess að hægt sé að gefa sér hvernig spilist úr því fyrir fram. Áhrif þess geta vissulega verið mikil og því er mikilvægt yfir alla [líka okkur Íslendinga, innskot höfundar] að fylgjast vel með þróun mála.
Höfundur: Kristinn Valdimarsson