Home / Fréttir / Kínverjar hafna frétt um ofurhljóðfráa kjarnaflaug

Kínverjar hafna frétt um ofurhljóðfráa kjarnaflaug

Kínverskri flaug skotið á loft.

Kínverjar segja að fréttir um að þeir hafi í júlí 2021 gert tilraun með lágfleygar ofurhljóðfráar flaugar sem geta borið kjarnavopn.

Frétt í þessa veru birtist í The Financial Times laugardaginn 16. október og var vitnað í ónafngreinda heimildarmenn. Sagt er að fréttin hafi komið bandarískum leyniþjónustustofnunum í opna skjöldu.

Zhao Lijian, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, hafnaði mánudaginn 18. október frétt blaðsins og sagði að um reglubundna skottilraun við þróun geimferðatækni hefði verið að ræða.

Ofurhljóðfrá flugskeyti ná allt að fimmföldum hraða hljóðsins og er erfiðara að granda þeim en venjulegum flaugum.

Robert Wood, sendiherra Bandaríkjanna í afvopnunarmálum, sagði við blaðamenn í Genf mánudaginn 18. október að Bandaríkjamenn hefðu „miklar áhyggjur vegna þessara frétta“, Sendiherrann sagði: „Við vitum alls ekki hvernig við getum varið okkur gegn þessari tækni, Kínverjar vita það ekki heldur og sama gildir um Rússa.“

Bandaríkjamenn, Kínverjar og Rússar og að minnsta kosti fimm aðrar þjóðir vinna nú að því að þróa ofurhljóðfráa hernaðartækni. Rússar hafa skotið ofurhljóðfráum flaugum frá herskipi og kafbáti í Norður-Íshafi síðari hluta árs 2021. Þá var fullyrt í september að Norður-Kóreumenn hefðu gert vel heppnaða tilraun með ofurhljóðfráa flaug.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …