Home / Fréttir / Kínverjar auka hernaðarútgjöld vegna ágreinings um yfirráð við nágrannaríki

Kínverjar auka hernaðarútgjöld vegna ágreinings um yfirráð við nágrannaríki

Kínverska þingið að störfum.
Kínverska þingið að störfum.

Stjórnvöld í Kína segja að útgjöld til hermála verði aukin um 7% á þessu ári með hliðsjón af efnahagsþróuninni og þörf fyrir aukin varnarumsvif vegna ágreinings um ráð yfir hafsvæðum og deilur við nágranna sem ýtt sé undir „með ytri afskiptum“.

Talsmaður kínverska þingsins kynnti þessi áform um aukin hernaðarútgjöld laugardaginn 4. mars þegar skýrt var frá málefnum sem rædd yrðu á 3.000 manna þingi Kína sem hófst sunnudaginn 5. mars eftir að Li Keqiang forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína.

Fu Ying, blaðafulltrúi Þjóðþings Kína, sagði vilja Kínverja að leysa úr ágreiningsmálum á friðsamlegan hátt. Þeir yrðu hins vegar jafnframt að hafa afl til að gæta eigin fullveldis, hagsmuna og réttinda.

Hún sagði sérstaklega brýnt að efla varðstöðu gegn ytri afskipum af nágrannadeilum. Hverjir það væru sem stunduðu þessi afskipti var ósagt.

Kínverjar eiga í deilum við stjórnvöld Filippseyja, Malasíu, Brunei og Víetnams í Suður-Kínahafi þar sem ekki hefur tekist að semja um markalínur milli yfirráðasvæða vegna einstakra eyja og rifa. Þá eiga Kínverjar einnig í útistöðum við Japani vegna yfirráða á Austur-Kínahafi.

Í báðum tilvikum hefur Bandaríkjastjórn tekið afstöðu með þeim sem eiga í vök að verjast vegna krafna Kínverja. Þeir hafa oftar en einu sinni farið hörðum orðum um þessi bandarísku afskipti og sakað stjórnvöld í Washington um að blanda sér í svæðisbundnar deilur og um að auka af ásetningi á vandann á umdeildu svæðunum.

Fu sagði að aukin hernaðarumsvif Kínverja yrðu einungis í varnarskyni og þau mundu stuðla að stöðugleika í Asíu.

Tilkynningin um aukin hernaðarútgjöld Kínverja var birt aðeins fáeinum dögum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti 10% aukningu á útgjöldum Bandaríkjanna til hermála.

Þegar Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, var í Bandaríkjunum í febrúar fullvissaði Trump hann um að stjórn sín stæði heilshugar við allar eldri skuldbindingar í öryggismálum gagnvart Japönum. Einkum vegna deilnanna um eyjarnar í Austur-Kínahafi, þær eru kallaðar Senkaku-eyjar á japönsku en Diaoyu á kínversku.

Þessi heitstrenging Trumps gagnvart Japönum olli reiði í Peking og utanríkisráðuneytið áréttaði að Kínverjar hefðu fullveldi yfir eyjunum og hafsvæðum umhverfis þær.

Þá hefur það einnig gerst að sendiherra Kína í Japan hefur sakað bandarísk og japönsk stjórnvöld um markvissan áróður gegn Kínverjum sem óvinum til að réttlæta áform sín um aukna hernaðarsamvinnu. Sendiherrann sagði „öryggisbandalag“ Bandaríkjamanna og Japana bera „skýran vott um kalda-stríðs-hugarfar“. Þetta gengi þvert á fyrirheit Japana um að bæta samskipti sín við Kínverja.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …