Home / Fréttir / Kínaforseti vill hraðari nútímavæðingu hersins

Kínaforseti vill hraðari nútímavæðingu hersins

Kínverskar skotflaugar á Torgi hins himneska friðar í Peking.
Kínverskar skotflaugar á Torgi hins himneska friðar í Peking.

Her Kína á að verða sneggri, með meiri slagkraft og nútímalegri. Þetta er krafa sem Xi Jinping, forseti Kína, setti fram í ræðu yfir fulltrúum á þingi Kína. Áður hafði þingið samþykkt hæstu útgjöld til hermála í sögu landsins.

Flokkleiðtoginn og forsetinn Xi Jinping hvatti til þess að nútímavæðingu kínverska hersins yrði hraðað.  Hann sagði að vísindalegar og tæknilegar lausnir væru „lykillinn“ að því að færa heraflann til nútímasns.

Ríkisfjölmiðlar Kína sögðu frá því mánudaginn 13. mars að Xi forseti hefði flutt ræðu yfir fulltrúum frelsishers alþýðunnar sem sitja á þjóðþingi Kína sem kom saman í Peking fyrir viku. Þar hefði forsetinn lagt áherslu á mikilvægi þess að búa herinn betri tækjum. Einnig ætti að bæta menntun og þjálfun hermanna, með því yrði unnt að leiða fram „meiri fjölda manna með framúrskarandi hæfileika til hernaðar“.

Kínverjar hafa árum saman unnið að því að þróa og eignast torséðar flugvélar, kafbáta og eldflaugakerfi.

Með því að auka tæknilega getu hersins er markmiðið að fækka hermönnum um 300.000 og hafa tæplega tvær milljónir manna undir vopnum. Yfirmenn hersins hafa undanfarna mánuði mótmælt þessari fækkun hermanna og telja þeir herinn afskiptan við ráðstöfun á opinberum fjármunum.

Á þinginu sem nú situr hafa verið samþykkt fjárlög sem gera ráð fyrir að alls verði 142 milljörðum evra varið til hermála. Í sögu Kína hefur þessi fjárhæð aldrei áður verið svo há. Hækkunin er 7% miðað við 2016.

Kínverska fréttastofan CNC segir meðaltal hernaðarútgjalda í heiminum vera 2,4% af vergri landsframleiðslu (VLF). Í stórveldum eins og Bandaríkjunum og Rússlandi sé hlutfallið 4% af VLF. Kínverjar verji 1,3% af VLF til hermála.

Fjárveitingar í Bandaríkjunum til hermála séu fjórum sinnum meiri en í Kína og jafnvel meiri en í næstu 9 löndum samtals.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …