
Boðuð hafa verið áform kínverska kommúnistaflokksins um að afnema stjórnarskrárákvæði sem setja tímamörk við setu manna í embætti forseta Kína. Við breytinguna getur Xi Jinping (64 ára), núverandi forseti, setið áfram eftir að öðru kjörtímabili hans lýkur árið 2023.
Xinhua-fréttastofan tilkynnti sunnudaginn 25. febrúar að tillaga um þessa breytingu á stjórnarskránni varðandi forsetann og varaforsetann hefði verið lögð fram á vettvangi flokksins.
Líklegt er að ekki sé sagt frá þessu nema samþykkt tillögunnar sé í höfn. Eftir að breytingin hefur orðið að stjórnlögum tryggir það Xi rétt til að sitja lengur sem leiðtogi flokks og þjóðar en nokkur annar frá því að Maó formaður sat við völd í rúmlega þrjá áratugi til ársins 1976.
Árum saman hefur verið orðrómur um að Xi Jinping vildi sitja í embætti án tímamarka. Tillagan stafestir að svo verður. Kínverska þingið verður að samþykkja tillöguna.
Sérfræðingar í málefnum Kína segja að þetta sýni að kínverskum kommúnistum hafi ekki tekist, frekar en skoðanabræðrum þeirra í Sovétríkjunum á sínum tíma, að koma sér saman um skipulagsbundna aðferð við leiðtogaskipti. Þetta hafi dregið alvarlegan dilk á eftir sér í Sovétríkjunum, sama kunni að gerast í Kína með afleiðingum sem geti haft gífurleg áhrif um heim allan.