Home / Fréttir / Kína: Xi Jinping hafinn á stall hjá Mao – vill herða tök kommúnistaflokksins

Kína: Xi Jinping hafinn á stall hjá Mao – vill herða tök kommúnistaflokksins

Xi Jinping þakkar flokksþingsfulltrúum.
Xi Jinping þakkar flokksþingsfulltrúum.

Þingi Kommúnistaflokks Kína lauk með því þriðjudaginn 24. október í Peking að ákvæði um að virða bæri hugmyndafræði Xi Jinpings forseta var sett í kínversku stjórnarskrána. Þetta er einstæð ákvörðun og þykir benda til þess að Xi ætli að skipa sér við hlið Mao Zedongs formanns í leiðtogaröð kínverskra kommúnista.

Kommúnistaflokkur Kína tilkynnti þriðjudaginn 24. október að nafn Xi Jingpings og vísan til stjórnmálakenninga hans yrði skráð í stjórnarskrá Kína.

„Hugsjónir Xi Jinpings um sósíalisma með kínverskum sérkennum fyrir nýja tíma,“ eru orðin sem sett verða í stjórnarskrána við hlið vísunar til Mao Zedongs, stofnanda kínverska kommúnistaríkisins. Nafnið á Deng Xiaoping var sett í stjórnarskrána eftir lát hans.

Xi varð leiðtogi Kína árið 2012 á 18. flokksþingi kínverskra kommúnista. Hann hefur síðan hert tök flokksins á öllum sviðum þjóðlífsins samhliða því sem vegur Kínverja vex á alþjóðavettvangi vegna efnahagsumsvifa þeirra og nú undanfarna mánuði vegna stjórnarhátta Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Vikuritið The Economist segir Xi valdamesta mann í heimi.

Sérfræðingar í málefnum Kína segja að með nýja ákvæðinu í stjórnarskránni sé tryggt að ekki verði deilt um það sem Xi segi og boði. Hann sé „vitinn í starfi og stefnu flokksins“. Þungamiðjan í boðskap hans er að kommúnistaflokkurinn eigi að fara með stjórn allra þátta þjóðlífsins frá efnahagsmálum til þess sem fólk segir á samfélagsmiðlum.

Willy Lam, stjórnmálaprófessor við Kínverska háskólann í Hong Kong, segir að með því að skrá nafn Xi í stjórnarskrána gefist honum „færi á að verða eins og Mao, leiðtogi til lífstíðar enda haldi hann heilsu“.

Tilkynningin um upphafningu Xi var gefin á lokafundi 19. flokksþingsins sem stóð í viku með þátttöku um 2.300 fulltrúa. Miðvikudaginn 25. október verður skýrt frá því hverjir eiga sæti í nýrri miðstjórn flokksins og stjórnmálaráði.

Xi verður aðalritari flokksins næstu fimm ár en sú venja hefur skapast að aðalritarinn sitji í 10 ár. Nú er talið líklegt að Xi hafi þessa venju að engu og sitji eins lengi og honum hentar.

Í setningarræðu Xi boðaði hann „nýja tíma“ sem leiddu til „heimsforystu“ Kínverja árið 2050. Hann hefur lagt áherslu á að koma fram sem ábyrgur, hógvær leiðtogi og talsmaður frjálsra alþjóðaviðskipta á tímum óvissu í vestrænum stjórnmálum.

Hvað sem verður um Xi sjálfan verða kenningar hans kenndar í öllum skólum, frá leikskólum til háskóla, eftir að nýja stjórnarskrárákvæðið kemur til framkvæmda og á meðan það er í gildi. Á þann veg verður innræting kommúnistaflokksins skipulega í hans anda og spá sumir að það leiði ekki til annars en persónudýrkunar sem kínverskir ráðamenn hafa forðast frá því á áttunda áratugnum þegar Mao andaðist.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …