Home / Fréttir / Kína: Xi fær alræðisvald í anda Maos

Kína: Xi fær alræðisvald í anda Maos

Hu Jintao ávarpaði Xi Jinping þegar hann var leddur út af flokksþinginu. Veikindi eða hreinsun?

Hu Jintao, fyrrverandi forseti Kína, (79 ára), var leiddur út af sviði flokksþings kínverskra kommúnista í þjóðarhöllinni við Torg hins himneska friðar í Peking laugardaginn 22. október skömmu eftir að erlendum fjölmiðlamönnum var hleypt inn á þingið og hófu myndatökur þar. Engin skýring var gefin á atvikinu en á vefsíðu Euronews segir að vangaveltur séu um heilsubrest hans.

Hu Jintao sat við hliðina á Xi Jinping sem tók við forystu flokksins af honum árið 2012. Virtist Hu dálítið utangátta þegar tveir aðstoðarmenn hjálpuðu honum að rísa á fætur. Hann sagði eitthvað stuttlega við Xi. Jiang Zemin, (96 ára), forseti á undan Hu sótti ekki flokksþingið.

Nú er gjarnan talað um Xi sem ofurleiðtogann í Kína. Hann var undir þinglok laugardaginn 22. október kjörinn til forystu í flokknum í þriðja skipti og brýtur þar með óskráða reglu sem gilt hefur frá dauða Maos árið 1976. Mao leiddi kommúnista til valda í Kína árið 1949 og stjórnaði landinu í aldarfjórðung með alræðisvaldi.

Á flokksþinginu núna var reglum flokksins breytt Xi til vegsauka. Á Euronews segir að texti breytinganna hafi ekki verið birtur. Áður en þær voru samþykktar las þulur rökstuðning fyrir þeim. Hann bar hvað eftir annað lof á afrek Xis til að styrkja herinn og efnahag þjóðarinnar samhliða því sem hann hefði eflt völd og áhrif flokksins.

Xi Jinping lætur ekki við það sitja að breyta reglum sér í hag heldur styrkir hann stöðu sína í stjórnkerfinu og flokknum með því að raða nýjum mönnum í æðstu embætti. Li Keqiang forsætisráðherra, embættismaðurinn sem gengur næst forsetanum formlega að völdum, er meðal fjögurra af sjö mönnum í stjórnmálaráði flokksins, valdamestu stofnun flokks og valds, sem voru sviptir sæti sínu þar og í miðstjórn flokksins.

Örlög þessara fjögurra manna birtist á lista yfir 205 fulltrúa í miðstjórninni. Þingið samþykkti listann 22. október. Hinir þrír úr stjórnmálaráðinu sem eru nú úti í kuldanum eru: Han Zheng, flokksleiðtogi í Shanghai, Wang Yang, forstjóri ráðgjafarstofnunar flokksins, og Li Zhanshu, gamall samstarfsmaður Xis og forseti þjóðþingsins.

Xi raðar hollvinum sínum í lykilstöður og tekur sjálfur forystu í stefnumótunarnefndum. Frjáls skoðanamyndun á bak við luktar flokksdyr sem forverarnir Hu Jintao og Jiang Zemin leyfðu er úr sögunni segir Euronews og vitnar í Ho-fung Hung, prófessor í stjórnmálahagfræði, við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum.

„Eins og málum er nú háttað er ekki mikið um umræður innan flokksins um ólík stefnumið, þar heyrist aðeins ein rödd,“ segir prófessorinn.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …