
Sendiherrar Afríkuríkja í Kína hafa sent kínverska utanríkisráðherranum bréf og kvartað undan því sem þeir kalla mismunun gagnvart Afríkumönnum í aðgerðum yfirvalda til að hindrað að COVID-19-faraldurinn taki sig upp í Kína. Mánudaginn 13. apríl tilkynntu kínversk yfirvöld að um helgina hefðu fleiri fundist smitaðir í landinu á einum sólarhring en undanfarnar sex vikur.
Samhliða ótta við aðra faraldursbylgju vaxa áhyggjur um að veiran kunni að berast með útlendingum til Kína. Kvörtun Afríkusendiherranna snýr að því að hart sé sótt gegn blökkumönnum og að ósekju sé litið á þá sem smitbera. Kínversk stjórnvöld hafna öllum ásökunum um mismunun gagnvart kynþáttum.
Afríkumenn í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína segja að leigusalar hafi rekið þá úr íbúðum sínum. Hvað eftir annað séu tekin af þeim sýni og veist að þeim með ónotum á almannafæri.
Í bréfi sendiherranna segir að með með vaxandi ofsóknum og mismunun sé ýtt undir þá ranghugmynd að Afríkumenn séu COVID-19-smitberar. Krefjast sendiherrarnir þess að tafarlaust verði hætt að neyða umbjóðendur sína til skimunar, að setja þá í einangrun og koma að öðru leyti fram við þá á ómannúðlegan hátt.
Sunnudaginn 12. apríl sagði Zhao Lijian, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, að yfirvöld í Guangdong-héraði, þar er Guangzhou, tækju kvartanir nokkurra Afríkuríkja alvarlega og leituðu tafarlaust að lausn vandans. Í yfirlýsingu ráðuneytisins er ekki minnst á bréf sendiherranna.
Í frétt Reuters segir að dæmi séu um að Afríkumenn séu vaktir um miðja nótt á hótelum og reknir á dyr. Vegabréf þeirra séu gerð upptæk, þeim sé hótað að vegabréfsáritanir verði afturkallaðar, þeir verði fangelsaðir og fluttir úr landi.
Shirley Ayorkor Botchwey, utanríkisráðherra Ghana, sagði laugardaginn 11. apríl að hún hefði kallað kínverska sendiherrann á sinn fund, lýst vonbrigðum sínum og krafist aðgerða af hálfu kínverskra yfirvalda. Sambærilegar fréttir berast frá Kenya.
Í Nígeríu tók forseti þingsins málið upp við kínverska sendiherrann og krafðist skýringa eftir að hafa sýnt honum myndskeið þar sem Nígeríumaður í Kína kvartaði undan illri meðferð á sér. Sendiherrann sagðist taka þetta „mjög alvarlega“ og mundi koma kvörtun þingforsetans til Peking.