Home / Fréttir / Kim Jong-un við hestaheilsu

Kim Jong-un við hestaheilsu

Kim Jong-un í reiðtúr.
Kim Jong-un í reiðtúr.

Kórea var hersetin af Japönum í seinni heimsstyrjöldinni.  Þegar þeir gáfust upp fyrir Bandamönnum í ágúst 1945 var Kóreuskaganum skipt í tvö hernámssvæði.  Réðu Sovétmenn norðursvæðinu en Bandaríkjamenn því syðra.  Suður – Kórea þróaðist með tímanum í lýðræðisríki og er nú eitt af auðugustu samfélögum veraldar.  Því miður átti sama þróun sér ekki stað í Norður – Kóreu.  Þar tók kommúnistastjórn við völdum.  Hún hefur leitt landsmenn til glötunar og eru lífsgæði íbúanna þar afar bágborin.  Umheimurinn fréttir lítið af stöðu mála í Norður – Kóreu, ef frá eru skildar fréttir af áhuga leiðtoga landsins á kjarnavopnavæðingu, enda er það lokaðasta land veraldar.  Þær fáu fréttir sem berast þaðan eru því óljósar en vekja að jafnaði talsverða athygli.

Fjallað var um nýjasta fjölmiðlafárið er tengist Norður – Kóreu í frétt hjá breska ríkisútvarpinu þann 6. maí síðastliðinn.  Sagan hófst þann 15. apríl.  Það er afmælisdagur Kims Il-sungs fyrsta leiðtoga Norður – Kóreu.  Sá lést árið 1994 en þetta er ennþá einn helsti hátíðisdagur landsins.  Leiðtogar ríkisins eru fastir gestir í veisluhöldum sem haldin eru í höfuðborginni Pyongyang en í ár bar svo við að núverandi einvaldur, Kim Jong-un, sem er barnabarn Kims Il-sungs, var hvergi sjáanlegur.

Fljótlega bárust fréttir af því að hann væri heilsuveill og ekki leið á löngu þar til þær vangaveltur tóku nýja stefnu og fóru fréttamiðlar að greina frá því að hann væri við dauðans dyr eða jafnvel látinn.  Ríkisstjórn Suður – Kóreu og leyniþjónusta Kína sögðu þetta ekki sannleikanum samkvæmt og þær reyndust hafa rétt fyrir sér því nú hafa fréttir borist af því að Kim Jong-un hafi opnað verksmiðju 1. maí síðastliðinn.  Leiðtoginn er þó greinilega ekki við hestaheilsu.  Árið 2014 fréttist ekki af honum í fjörtíu daga og þegar hann kom aftur fram á sjónarsviðið gekk hann við staf.  Mun hann þjást af þvagsýrugigt.

Kórónuveirufaraldur í Norður – Kóreu?

Hvar var Kim seinni part aprílmánaðar?  Ekki hefur fengist úr því skorið en leiddar hafa verið líkur að því að hann hafi haldið sig til hlés til að forðast að smitast af kórónuveirunni.   Fjallað var um hvaða áhrif faraldurinn gæti haft á landið í frétt breska ríkisútvarpsins 26. febrúar síðastliðinn.  Ríkisstjórn Norður – Kóreu heldur því fram að faraldurinn hafi ekki borist til landsins enda hafi hún gert nauðsynlegar varúðarráðstafanir.  Ýmsir efast um að fullyrðingar hennar séu réttar.  Geysi faraldur í landinu eru allar líkur á því að landsmenn fari illa út úr honum enda er heilbrigðiskerfið afar lélegt í þessu frumstæða ríki.  Eitt er víst að efnahagur landsins hefur orðið fyrir miklu tjóni aðallega vegna þess að Norður – Kórea lokaði landamærunum að Kína sem er helsta viðskiptaþjóð ríkisins.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …