
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, var í járnbrautarlestinni dularfullu sem renndi inn á brautarstöðina í Peking síðdegis mánudaginn 26. mars og hélt þaðan aftur síðdegis þriðjudaginn 27. mars. Án þess að greint væri frá ferð hans fyrr en eftir heimkomu til Norður-Kóreu hélt Kim til Peking og hitti þar Xi Jinping, forseta Kína. Ríkisfréttastofa N-Kóreu skýrði frá ferðinni miðvikudaginn 28. mars.
Þetta var fyrsta ferð Kims (34 ára) út fyrir landamæri N-Kóreu frá því að hann tók við völdum að föður sínum látnum árið 2011. Kim sagði forseta Kína að hann væri opinn fyrir viðræðum við Bandaríkjamenn og þar á meðal fundi við Donald Trump, auk þess vildi hann að Kóreuskagi yrði kjarnorkuvopnalaus að því er segir í frétt kínversku ríkisfréttastofunnar Xinhua.
„Ef Suður-Kóreumenn og Bandaríkjamenn svara framlagi okkar með góðum vilja og skapa andrúmsloft friðar og stöðugleika og grípa til áfangaskiptra, samstilltra aðgerða til ná friði kann að verða unnt að komast að niðurstöðu um kjarnorkuvopnaleysi skagans,“ sagði Kim ef marka má frásögnina sem Xinhua birti af fundi hans með Xi.
Kínverski forsetinn, Xi, sagði Kínverja styðja aðgerðir til að draga úr spennu á Kóreuskaga og fór lofsamlegum orðum um Kim fyrir nýlegt framlag hans til þess.
Tónninn í frásögn Xinhua af fundinum er talinn annar en sá sem mótað hefur samskipti nágrannaþjóðanna undanfarin sex ár. Sagt hefur verið að kuldi ríkti milli leiðtoga landanna. Kim hefur haft tilmæli frá Kína að engu og látið myrða forystumenn innan stjórnar sinnar sem voru helstu tengiliðir við kínversk stjórnvöld, þar á meðal frænda sinn.
Yang Xiyu, einn helsti sérfræðingur Kínverja í málefnum Norður-Kóreu, sagði Kim greinilega vilja endurbæta samskiptin við kínverska ráðamenn, hefðbundna bandamenn sína og velgjörðarmenn, samtímis og hann skapaði ný tengsl við óvini sína í Suður-Kóreu. Yang sagði að ekki ætti að líta þannig á að Kim vildi afsala sér kjarnorkuvopnum þótt hann hefði sagt Suður-Kóreumönnum að hann væri fús til að ræða málið.
„Hann er að hefja nýjan leik þar sem hann getur gefið kjarnorkuvopnaleysi til kynna,“ sagði Yang í The New York Times. „Hann mun í mesta lagi slá blettinn en ekki rífa upp ræturnar.“
Torsten Krauel, aðalfréttaskýrandi Die Welt í Þýskalandi, bendir á að mikill munur sé á því hvort talað sé um „kjarnorkuvopnalausan Kóreuskaga“ eða „kjarnorkuvopnalausa Norður-Kóreu“. Engin bandarísk kjarnorkuvopn séu lengur í Suður-Kóreu en þau séu hins vegar í Norður-Kóreu. Með því að tala um kjarnorkuvopnalausan Kóreuskaga eigi Norður-Kóreumenn við allt annað en eigin kjarnorkuher. Þeir vilji brottflutning allra bandarískra kjarnorkuvopna sem nota megi gegn Norður-Kóreu – kjarnorkuvopna í Japan, á Guam-eyju, á flugmóðurskipum Kyrrahafsflotans svo að dæmi séu nefnd. Þá vilji þeir einnig brottflutning allra tækja sem nota megi til að flytja kjarnorkuvopn til Norður-Kóreu, þar á meðal bandarískra flugvéla frá Okinawa og Guam.
Krauel bendir á að þegar segi í tilkynningu Kínverja að Xi Jinping telji viðræðurnar hafa verið „opnar og vinsamlegar“ felist í því að hann hafi talað föðurmannlega og tæpitungulaust við Kim, þeir hafi ekki endilega verið sammála. Þrátt fyrir þetta hafi þeir ákveðið að stilla saman strengi. Í þeim orðum felist að Xi Jinping beini máli sínu sem gestgjafi á fundinum til Donalds Trumps Bandaríkjaforseta – hann skuli ekki halda að hann geti farið með Kim að eigin vild og Kínverjar láti það sig engu skipta.
Niðurstaða Krauels er að Kim Jong-un viti nú að hann hafi „stóra bróður“ í bakhöndinni þegar hann hittir Trump. Kóreumenn hafi jafnan varann á gagnvart Kínverjum en nú komi það Kim að góðu gagni að vita af því að Xi Jinping skipi sér í huganum sín megin við borðið á fundinum með Trump. Það kæmi ekki á óvart að Kim Jong-un gerði sér einnig ferð til Pútíns áður en hann hittir Trump. Hann ætti auðveldara með að bregðast við orðum Trumps, yrði hann með einhvern skæting, með tvo samstarfsaðila að baki sér.