
Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, hefur fallið frá kröfu sem til þessa hefur verið úrslitakostur hans vegna allra samninga við Suður-Kóreumenn og Bandaríkjamenn. Hann setur ekki lengur sem skilyrði að bandaríski herinn verði fluttur frá Suður-Kóreu.
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, skýrði frá þessu fimmtuadaginn 19. apríl. Forsetinn hittir Kim Jong-un í föstudaginn 27. apríl á hlutlausa svæðinu milli landanna.
Föstudaginn 20. apríl var skýrt frá því að komið hefði verið á beinu símasambandi milli leiðtoga S- og N-Kóreu til að auðvelda undirbúning leiðtogafundarins.
Árum saman hafa Norður-Kóreumenn sagt að þeir verði að eiga kjarnorkuvopn til að verjast „fjandsamlegri stefnu“ Bandaríkjastjórnar. Auk þess hafa þeir sagt að þeir verði að fá tryggingu fyrir að ekki verði vegið að öryggi lands þeirra. Í því felist að bandarískir hermenn hverfi frá Suður-Kóreu.
Moon Jae-in bauð forráðamönnum 48 fjölmiðla til bústaðar síns, Bláa hússins, til að upplýsa þá um umgjörð og efni fundarins með Kim Jong-un.
„Norður-Kóreumenn árétta áform sín um algjöra kjarnorkuafvopnun. Þeir setja ekki fram neinar kröfur sem Bandaríkjamenn geta ekki samþykkt. Til dæmis um að Bandaríkjamenn dragi herafla sinn frá Kóreu,“ er haft eftir forsetanum í stærstu blöðum S-Kóreu sem áttu fulltrúa á hádegisverðarfundi forsetans.