
Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, staðfesti mánudaginn 9. apríl í fyrsta sinn opinberlega að hann ætlaði að eiga fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Alþjóðlegar fréttastofur segja að hann hafi gert þetta á fundi stjórnmálaráðs flokks verkamanna í N-Kóreu. Þar hafi Kim útlistað hugsanleg áhrif væntanlegra funda sinna með Bandaríkjamönnum og S-Kóreumönnum.
Í frétt n-kóresku ríkisfréttastofunnar KCNA segir að Kim Jong-un hafi „flutt djúpa greiningu og mat á núverandi stöðu í samskiptum milli norðurs og suðurs og líkum á samtali“ milli fulltrúa N-Kóreu og Bandaríkjanna.
Ónafngreindir heimildarmenn innan Trump-stjórnarinnar sögðu The Wall Street Journal mánudaginn 9. apríl að Norður-Kóreumenn hefðu staðfest við fulltrúa Bandaríkjanna að leiðtogi N-Kóreu væri fús til að ræða kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga.
Sérfræðingar á Vesturlöndum hafa varað við því að í N-Kóreu leggi menn annan skilning í „kjarnorkuafvopnum á Kóreuskaga“ en gert sé á Vesturlöndum eða í kröfu S-Kóreumanna um að N-Kóreumenn falli frá kjarnorkuáformum sínum og eyði vopnunum.
Kim Jong-un fór undir lok mars til Peking og ræddi við Xi Jinping Kínaforseta og aðra kínverska ráðamenn. Eftir heimsóknina sendu Kínverjar frá sér tilkynningu þar sem fram koma Kim Jong-un hefði látið í ljós ósk um kjarnorkuafvopnun.
Kim Jong-un ætlar að hitta Moon Jae-in, forseta S-Kóreu 27. apríl.
Donald Trump sagði mánudaginn 9. apríl að hann hefði í hyggju að hitta Kim Jong-un „í maí eða byrjun júní“. Yrði það fyrsti fundur forseta Bandaríkjanna með leiðtoga N-Kóreu.
Trump sagði við AFP-fréttastofuna: „Ég tel að það verði mikil gagnkvæm virðing og vonandi verður gerður samningur um kjarnorkuafvopnun.“ Lýsti hann einnig von um að samskipti landanna tveggja yrðu „allt önnur en þau hafa verið mörgum árum saman“.