Home / Fréttir / Kim Jong-un segir ekki lengur þörf á tilraunum með kjarnorkuvopn og eldflaugar

Kim Jong-un segir ekki lengur þörf á tilraunum með kjarnorkuvopn og eldflaugar

Miðstjórn kommúnistaflokks N-Kóreu á fundi 20. apríl 2018.
Miðstjórn kommúnistaflokks N-Kóreu á fundi 20. apríl 2018.

Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, tilkynnti laugardaginn 21. apríl að ekki væri lengur þörf á því að efna til tilrauna með kjarnorkuvopn eða langdrægar eldflaugar í landi sínu. Tilraunasvæðum með kjarnorku yrði lokað.

„Tilraunasvæðin með kjarnorku hafa lokið hlutverki sínu,“ var haft eftir Kim í ríkisútvarpi hans.

Litið er á þessa tilkynningu sem lið í undirbúningi Kims vegna fundar hans með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, föstudaginn 27. apríl. Hver fréttin rekur nú aðra um breytta afstöðu Kims til kjarnorkuvopna en ekki eru nema nokkrir mánuðir frá því að hann hótaði Bandaríkjamönnum með sprengjum og eldflaugum sem næðu til hvers kima í landi þeirra.

Í yfirlýsingu Kims segir ekkert um hvað hann ætli að gera við þau kjarnorkuvopn sem enn eru í vopnabúrum hans eða eldflaugarnar sem geta flutt þau heimsálfa á milli. Allt bendir til að hann ætli að geyma þau til öryggis.

Rætt er um að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un hittist í maí eða byrjun júní. Trump fagnaði nýjustu yfirlýsingu Kims og sagði það „mjög góðar fréttir“ sem í henni segði „fyrir Norður-Kóreu og heiminn – miklar framfarir. Hlakka til toppfundar okkar.“

Moon, forseti S-Kóreu, tók tíðindunum einnig vel og sagði um „markvert skref að ræða til kjarnorkuafvopnunarinnar á Kóreu-skaga“.

Japanskir embættismenn taka öllum yfirlýsingum Kims og brotthvarf hans frá kjarnorkuvopnum með fyrirvara. Itsunori Onodera, varnarmálaráðherra Japans, varaði við því að dregið yrði úr þrýstingi á stjórn Norður-Kóreu.

 

 

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …